Enski boltinn

Klopp rifjaði upp fyrstu kynni sín af Ferguson: „Eins og að hitta páfann“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jürgen Klopp hefur gert Liverpool að bæði Englands- og Evrópumeisturum.
Jürgen Klopp hefur gert Liverpool að bæði Englands- og Evrópumeisturum. getty/Paul Ellis

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, rifjaði upp fyrstu kynni sín af Sir Alex Ferguson, fyrrverandi stjóra Manchester United, eftir að hann var valinn stjóri ársins af þjálfarasamtökunum á Englandi.

Verðlaunin eru nefnd í höfuðið á Ferguson og það var Skotinn sem tilkynnti að Klopp fengi verðlaunin í ár. Þar sagði hann m.a. að Klopp hefði hringt í sig um miðja nótt til að tilkynna honum að Liverpool væri Englandsmeistari. Ferguson sagðist ekki erfa það við Klopp.

Í þakkarræðu sinni minntist Klopp sinna fyrstu kynna af Ferguson og sagði að það hefði verið eins og að hitta sjálfan páfann.

„Ég veit að það er ekki viðeigandi fyrir stjóra Liverpool að segja þetta en ég dáist að honum. Hann var fyrsti breski stjórinn sem ég hitti og við fengum okkur morgunmat saman,“ sagði Klopp.

„Það er langt síðan og ég veit ekki hvort hann man eftir því. En ég mun alltaf gera það því þetta var eins og að hitta páfann fyrir mig. Það var algjörlega frábært og við náðum strax saman. Þá gat ég ekki ímyndað mér að í framtíðinni myndi ég halda á þessum verðlaunum sem eru kennd við hann.“

Klippa: Klopp rifjar upp fyrstu kynnin af Ferguson

Undir stjórn Klopps varð Liverpool Englandsmeistari eftir 30 ára bið. Liðið fékk 99 stig og var átján stigum á undan liðinu í 2. sæti, Manchester City.

Í fyrra gerði Klopp Liverpool að Evrópumeisturum. Liðið hefur einnig unnið Ofurbikar Evrópu og heimsmeistarakeppni félagsliða undir stjórn þess þýska.


Tengdar fréttir

Klopp, Bielsa og Emma best

Jurgen Klopp, Emma Hayes og Marcelo Bielsa voru verðlaunuð af þjálfarafélaginu á Englandi er nýyfirstaðin leiktíð var gerð upp í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×