Enski boltinn

Segist hafa verið týndur sem leikmaður og manneskja

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Lingard fagnar eina deildarmarki sínu á tímabilinu.
Lingard fagnar eina deildarmarki sínu á tímabilinu. EPA-EFE/Oli Scarff

Jesse Lingard, leikmaður enska úrvalsdeildarfélagsins Manchester United, hefur ekki verið upp á sitt besta inn á fótboltavellinum undanfarna 12 mánuði eða svo. Hann segist hafa verið týndur sem bæði leikmaður og manneskja.

Lingard, sem var fastamaður í enska landsliðinu á HM í Rússlandi sumarið 2018, byrjaði aðeins níu deildarleiki fyrir Manchester United á tímabilinu en hann kom þó 13 sinnum af varamannabekk liðsins. 

Hans eina mark í deildinni kom í síðasta leik tímabilsins á sunnudaginn var er liðið lagði Leicester City 2-0 og tryggði sér þar með sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð. Markið kom á áttundu mínútu uppbótartíma.

Hinn 27 ára gamli Lingard opnaði sig varðandi vandræði sín síðasta árið á á Instagram-síðu sinni eftir sigurinn gegn Leicester. Þar segir hann að tímabilið hafi verið mjög erfitt út af margvíslegum ástæðum. 

Mamma hans varð alvarlega veik og því hefur Lingard þurft að sjá um yngri systkini sín þar sem hún er ófær um það. Einnig er afi hans veikur og faðir hans virðist einfaldlega ekki vera inn í myndinni. Því fellur það á Lingard að sjá um systkini sín, mæti á foreldrafundi í skólanum og því um líkt. 

Þá á hann eins árs gamla stelpu en hann er ekki í sambúð með barnsmóður sinni. 

Í færslunni á Instagram segist Lingard einfaldlega hafa misst sjónar á því hver hann væri sem leikmaður og manneskja. Hann hafi þó ekki viljað gefast upp. Þessi litríki karakter átti góðu gengi að fagna undir stjórn José Mourinho og vann sér þannig inn byrjunarliðssæti í enska landsliðinu. 

„Ég veit að stuðningsmenn Manchester United hafa verið pirraðir, en ást mín á félaginu og öllum tengdum því er enn til staðar. Þetta lið, þetta félag er fjölskylda mín og ég mun halda áfram að gefa allt sem ég á til að ná þeim markmiðum sem það hefur sett,“ sagði Lingard.

Eins og áður kom fram þá hefur Lingard ekki verið upp á sitt besta og er talið að hann gæti verið seldur frá félaginu í sumar. Eru Newcastle United og West Ham United talin líklegust til að kaupa hinn 27 ára gamla Englending ef Ole Gunnar Solskjær ákveður að hann hafi engin not fyrir hann. 

Mögulega fær hann sjaldséð tækifæri til að láta ljós sitt skína í Evrópudeildinni en United er með sigurstranglegri liðum þar. Keppnin hefst að nýju þann 5. ágúst en Man Utd er svo gott sem öruggt með sæti í 8-liða úrslitum eftir 5-0 sigur á LASK Linz frá Austurríki í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum.


Tengdar fréttir

United kom sér í Meistaradeild Evrópu

Manchester United leikur í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð eftir að liðið vann Leicester 2-0 í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×