Erlent

Banna sölu skyndibita og sykraðra drykkja til barna

Andri Eysteinsson skrifar
Óheimilt verður að auglýsa, selja eða dreifa sykruðum drykkjum til barna samkvæmt lögunum.
Óheimilt verður að auglýsa, selja eða dreifa sykruðum drykkjum til barna samkvæmt lögunum. Getty/SOPA

Yfirvöld í mexíkóska ríkinu Oaxaca hafa ákveðið að leggja blátt bann við sölu skyndibita og sykraðra drykkja til barna. Banninu er ætlað að sporna gegn offitu og sykursýki á meðal barna sem er mikið vandamál í norður-ameríkuríkinu.

BBC greinir frá því að Oaxaca sé fyrsta ríki Mexíkó til að taka ákvörðun sem þessa en í landinu er hæsta hlutfall barna sem glíma við ofþyngd í heiminum. Þá telst 73% þjóðarinnar einnig of þung. Þá er Oaxaca það ríki Mexíkó þar sem hlutfallslega flest börn og næst flestir fullorðnir glíma við offitu.

Samþykki laganna var fagnað innan veggja ríkisþings Oaxaca á sama tíma og veitingamenn og verslunareigendur mótmæltu fyrir utan. Með lögunum er óheimilt að selja, dreifa og auglýsa sykraða drykki og skyndibita til barna undir lögaldri og ná lögin einnig til sjálfsala í skólum.

Höfundur frumvarpsins sem varð að lögum, Magaly Lopez Dominguez, segir að markmið laganna sé ekki að koma höggi á veitingamenn og verslunareigendur. Þeir gætu enn selt vörurnar, bara ekki til barna.

Verði einhver uppvís um að brjóta gegn lögunum getur þeirra beðið fjársekt og lokun verslunarinnar. Möguleiki er á fangelsisvist ef brotið er endurtekið gegn lögunum.

Hugo Lopez-Gatell sem fer fyrir viðbrögðum Mexíkó gegn kórónuveirufaraldrinum fagnaði ákvörðuninni en hann hefur kallað sykraða drykki „eitur í flösku“ og hvatti fólk til að hætta neyslu þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×