Steinþór Hróar Steinþórsson, betur þekktur sem Steindi, er andlit Íslandsbankamaraþonsins, og ætlaði hann sér að hlaupa heilmaraþon.
Eins og margir vita er búið að aflýsa hlaupinu vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.
Steindi ræddi málið í Brennslunni í morgun en hann hljóp hálfmaraþon fyrir nokkrum árum.
„Ég var búinn að taka þrjár æfingar. Ég var búinn að lofa því að hlaupa allt maraþonið og hefði alltaf gert það,“ segir Steindi.
„Ég verð bara að færa þetta yfir á næsta ár og hlaupa þá heilt maraþon og þá engar afsakanir. Enginn helvítis veira og ég í góðu standi.“
Hann segist hafa verið mjög spenntur fyrir hlaupinu.
„Það eiga bara allir að hlaupa sína eigin hlaupaleið á hlaupadag og hlaupa fyrir sjálfan sig í hverfinu sínu og hlaupa fyrir góðgerðafélag. Bara reyna safna aðeins fyrir þessi málefni. Ég ætla sjálfur að hlaupa þennan dag, allavega tíu kílómetra,“ segir Steindi sem ætlar að hlaupa fyrir Einstök börn.