Handbolti

EM í dag: Erlingur fyrsti Íslendingurinn í EM partýið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erlingur Birgir Richardsson stýrir hollenska landsliðinu í sögulegum leik í dag.
Erlingur Birgir Richardsson stýrir hollenska landsliðinu í sögulegum leik í dag. Getty

Evrópumótið í handbolta hefst í dag með fjórum leikjum en leikið verður í A- og C-riðli.

Íslenska landsliðið spilar ekki fyrsta leikinn fyrr en á laugardag og íslenska dómaraparið dæmir ekki sinn fyrsta leik fyrr en á morgun. Það verður samt Íslendingur í eldlínunni í dag.

Erlingur Birgir Richardsson er þjálfari hollenska landsliðsins sem hefur leik í dag með leik á móti öflugu liði Þjóðverja. Leikurinn hefst klukkan 17.15 að íslenskum tíma og fer fram í Þrándheimi í Noregi.

Leikurinn í dag verður sá fyrsti sem Erlingur stýrir landsliði á stórmóti en þetta er líka sögulegur leikur fyrir hollenska landsliðið sem er nú á sínu fyrsta Evrópumóti.

Hollenska landsliðið hefur aðeins einu sinni áður komist á stórmót en það var á HM í Vestur-Þýskalandi árið 1961.

Leikurinn á móti Þjóðverjum í dag verður þannig fyrsti stórmótaleikur hollenska karlalandsliðsins í handbolta í tæp 59 ár.

Erlingur kom hollenska landsliðinu á EM þegar liðið var eitt af þeim sem náðum bestum árangri í þriðja sæti síns riðils í undankeppninni. Slóvenía og Lettland komust líka upp úr riðlinum en þau voru í tveimur efstu sætunum.

Holland vann þrjá af sex leikjum sínum í undankeppninni þar af þá tvo síðustu í júní síðastliðnum.

Leikir dagsins á EM 2020:

A-riðill

Kl. 17.15 Hvíta Rússland - Serbía

Kl. 19.30 Króatía - Svartfjallaland



C-riðill

Kl. 17.15 Þýskaland - Holland

Kl. 19.30 Spánn - Lettland




Fleiri fréttir

Sjá meira


×