Handbolti

Lands­liðið treystir á vel­vild fé­laganna varðandi æfingar­tíma: „Baga­legt“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Staðan er ekki góð hvað varðar æfingartíma fyrir íslenska landsliðið.
Staðan er ekki góð hvað varðar æfingartíma fyrir íslenska landsliðið. vísir/skjáskot

Landsliðið í handbolta flýgur í kvöld til Svíþjóðar og spilar fyrsta leikinn gegn Dönum á laugardag.

Aðstöðuleysi hefur háð undirbúningi liðsins og liðið þarf að biðla til íþróttafélaga um æfingaaðstöðu.

„Undirbúningurinn hefur gengið vel. Það sem hefur háð okkur mikið er að við eigum ekki aðstöðu,“ sagði Róbert í samtali við Arnar Björnsson í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Við erum háðir félögunum okkar að skaffa okkur æfingartíma. Það hefur orðið til þess valdandi að við höfum ekki æft á þeim tímum sem við viljum.“

„Það er bagalegt. Það er hræðilegt að hugsa til þess að við séum á leiðinni á stórtmót aðstæðulausir. Við erum háðir velvild annarra um hvenær við getum æft og hvort við getum æft.“

Róbert segir að vandamálið sé ekki nýtt af nálinni.

„Að öðru leyti hefur þetta gengið vel en þetta er árlegt vandamál hjá okkur. Við erum að gefa út æfingarplönin seint því félögin eru að redda okkur tímum.“

„Við erum að leita til þeirra að komast inn í þeirra hús og oft á tíðum geta þau svarað okkur seint út frá þeirra skipulagi. Þetta er árlegt vandamál sem verður verra og verra.“

Oft hefur verið rætt um fjárhagsstöðu HSÍ en Róbert segir hana í fínum málum í dag.

„Þetta er alltaf barningur en við erum ágætlega staddir. Það hefur komið aukning úr afrekssjóði og við eigum velvild nokkurra fyrirtækja sem styðja okkur vel. Við erum alltaf að leita en þetta sleppur til,“ sagði Róbert.

Innslagið í heild sinni má sjá hér að neðan en Vísir og Stöð 2 fylgja landsliðinu hvert fótmál í Svíþjóð og færir helstu fréttir af liðinu.

Klippa: Aðstöðuvandamál HSÍ

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×