Enski boltinn

Solskjær: Versti hálfleikur tímabilsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ole Gunnar Solskjær eftir leikinn á Old Trafford í gær.
Ole Gunnar Solskjær eftir leikinn á Old Trafford í gær. Getty/Tom Purslow

Manchester United gat þakkað fyrir að tapa bara 3-1 á heimavelli í gærkvöldi í fyrri undanúrslitaleik sínum á móti Manchester City í enska deildabikarnum og knattspyrnustjórinn Ole Gunnar Solskjær var heldur ekkert að fegra hlutina.

Manchester United lenti 3-0 undir í fyrir hálfleik en auk þess klúðruðu leikmenn City hverju dauðafærinu á fætur öðru. Manchester City hefði auðveldega vera fimm eða sex mörkum yfir í hálfleik.

Ole Gunnar Solskjær segir að leikmenn sínir hafi misst hausinn eftir að Bernardo Silva kom Manchester City yfir á 17. mínútu.

„Liðið hefur ekki spilað verr á þessu tímabili en það gerði frá fimmtándu mínútu til hálfleiks. Við réðum ekki við áfallið að fá á okkur þetta mark. Núna þurfum við að klífa fjall,“ sagði Ole Gunnar Solskjær eftir leikinn.

Riyad Mahrez kom Manchester City í 2-0 á 33. mínútu og þriðja markið var sjálfsmark Andreas Pereira. Raheem Sterling óð í færum en var fyrirmunað að skora.

Yfirburðirnir voru það miklir að margir voru farnir að hugsa til 6-1 tap United á móti City árið 2011. Leikmenn Manchester United sluppu hins vegar inn í hálfleikinn bara 3-0 undir og Marcus Rashford minnkaði síðan muninn í síðari hálfleik sem var mun betri hjá United liðinu.



Manchester City er vissulega í lykilstöðu eftir 3-1 sigur á útivelli en knattspyrnustjórinn Pep Guardiola talaði varlega eftir leikinn.

„Þetta eru ekki þrjú stig og þetta er ekki búið. Þeir eru með hættulegt lið. Á síðasta tímabili töpuðu þeir með sama mun á heimavelli á móti PSG en fóru síðan til Fraklands og komust áfram,“ sagði Pep Guardiola.

Seinni leikurinn fer fram 29. janúar en áður mun Manchester United liðið spila við Wolves í endurteknum leik í enska bikarnum og mæta síðan Liverpool á Anfield.

„Ég hef sagt það áður að við lögum þetta ekki á einum degi. Þetta er eitthvað sem við erum byrjaðir á og við eigum enn langt í land en þetta er líka eitthvað sem varð að gerast,“ sagði Solskjær en þetta var þriðja tap Manchester United í síðustu sex leikjum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×