Embætti héraðssaksóknara hefur borist tilkynning frá skiptastjórum þrotabús WOW air vegna hugsanlegs brots í rekstri flugélagsins. RÚV greinir frá.
Í frétt RÚV segir að tilkynningin byggi að mestu leyti á ráðgjafaskýrslu sem endurskoðunarfyrirtækið Deloitte skilaði skiptastjórum þrotabúsins í ágúst. Hún snúi meðal annars að skuldabréfaútboði flugfélagsins og húsnæði sem WOW air leigði í London.
Í skýrslunni kom meðal annars fram að þeim fjármunum sem söfnuðust í útboðinu hafi að mestu verið varið til uppgreiðslu gjaldfallinna krafna, eða rúmum 33 milljónum dala af þeim 50 milljónum sem voru til ráðstöfunar eftir útboðið. Þar kom einnig fram að Skúli Mogensen, stofnandi og forstjóri WOW air, hafi keypt 10 prósent af heildarútgáfunni, sem hafi verið að fullu leyti fjármögnuð með lántöku frá Arion banka.
Eftir að skýrsla Deloitte var kynnt kröfuhöfum sagði Skúli í yfirlýsingu að það væri fráleitt að halda því fram að hann og hans fólk hafi ekki unnið að heilindum í einu og öllu við uppbyggingu flugfélagsins og síðar við að reyna að bjarga félaginu frá falli.
Einnig hefur komið fram að skiptastjórarnir hafi til skoðunar að krefjast endurgreiðslu á þeim kostnaði sem féll til vegna fasteignar Skúla Mogensen í London. Í skýrslu Deloitte voru sagðar líkur á því að greiðslur WOW air vegna leigu á íbúðinni hafi ekki ekki verið reistar á viðskiptalegum forsendum.
Skúli hefur sjálfur sagt að ekkert óeðlilegt hafi verið við það að flugfélagið hafi leigt og greitt fyrir húsnæði fyrir hann í London í upphafi árs 2017. Þannig hafi WOW air á þeim tíma verið að undirbúa opnun á nýrri starfsstöð í London auk þess sem að til skoðunar hafi verið að skrá félagið á markað í London. Hvort tveggja hafi kallað á verulega viðveru forstjóra félagsins í London.
