Handbolti

Elvar Örn: Ég er í kapp­hlaupi við tímann

Svava Kristín Gretarsdóttir skrifar

Landsliðsmaðurinn, Elvar Örn Jónsson, meiddist í upphafi leiks Íslands og Þýskalands á laugardaginn, Elvar lenti illa sem varð til þess að hann snéri sig á ökkla og gat hann ekki tekið meira þátt í leiknum

 

Hann segir að þeir hafi óttast það versta en fljótlega eftir leik hafi komið í ljós að meiðslin væru ekki jafn alvarleg og búist var við.


„Við tókum stöðuna aftur í hálfleik og svo eftir leik og þetta leit betur út en við héldum fyrst. Nú er þetta bara kapphlaup við tímann að ná bólgunni og marinu út fyrir fyrsta leik,“ sagði Elvar í Sportpakka Stöðvar 2 í kvöld.



Elvar er ekki farinn að æfa aftur en hann er í stöðugri meðhöndlun sjúkraþjálfara og nýtur góðs af því að pabbi hans sjái um meðhöndlunina


„Já ég er hjá honum núna 24 tíma sólahrings á Selfossi, ég er í "treatmenti" bara allan daginn“ sagði Elvar og segir að markmiðið hjá þeim feðgum sé einfalt, þeir ætla að ná honum leikfærum fyrir fyrsta leik gegn Dönum 11. janúar.

 

Þrátt fyrir slakt gengi gegn Þjóðverjum þá segir Elvar að væntingarnar séu þær sömu, þeir ætla sér upp úr riðlinum.

 

„Við fengum ákveðin svör á móti Þjóðverjum. Það er margt sem við þurfum að laga, varðandi varnarleikinn, hlaup til baka og við þurfum að vera agaðari sóknarlega.“

 

„Enn markmiðin okkar hafa ekkert breyst, það verður mjög gott hjá okkur ef við komumst upp úr þessum sterka riðli,“ sagði Elvar Örn að lokum.

Innslagið má sjá hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×