Enski boltinn

Hetjan í Bítlaborgarslagnum: Þreytandi að sitja á bekknum

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Curtis Jones í baráttunni í dag.
Curtis Jones í baráttunni í dag.

Átján ára Englendingur stal senunni á Anfield í dag þegar Liverpool lagði erkifjendur sína í Everton að velli í 3.umferð enska bikarsins.

Leikmaðurinn sem um ræðir heitir Curtis Jones og hefur verið í aðalliðshóp Liverpool í allan vetur án þess að fá ýkja mörg tækifæri enda liðið firnasterkt. Hann telur sig þó eiga fullt erindi í liðið.

„Ég fór bara út og reyndi að spila minn leik. Það hefur verið þreytandi að þurfa að sitja löngum stundum á bekknum og fá stundum tækifæri en þurfa svo aftur að setjast á bekkinn,“ sagði Jones í leikslok.

„Ég hef beðið eftir þessu tækifæri og vonandi tókst mér að nýta það til fulls með þessu góða marki.“

Liverpool stillti upp algjöru varaliði í leiknum og þrátt fyrir að vilja meiri spilatíma virðist ungstirnið gera sér fyllilega grein fyrir því hve sterkt Liverpool liðið er um þessar mundir.

„Ég get ekki lýst tilfinningum mínum. Fyrir mig er risastórt að fá að vera í kringum þetta lið daglega og fá að læra af þessum hópi. Það eru heimsklassa leikmenn í öllum stöðum en ég held að ég hafi sýnt í dag hvað ég get fært liðinu,“ sagði Jones.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×