Loftmengun í Reykjavík var komin yfir heilsuverndarmörk á ellefta tímanum í gær og mældist hún langmest um klukkan eitt í nótt. Svifryk í andrúmsloftinu var þó mun minna en um síðustu áramót.
Svifryk mældist mest um sexfalt það sem heilsuverndarmörk miða við en í fyrra fór það hæst í ríflega tuttuguföld heilsuverndarmörk.
Heilsuverndarmörk svifryks eru 50 míkrógrömm á rúmmetra og mest mældist magn svifryks 317 míkrógrömm við Grensásveg klukkan eitt í nótt. Við Dalsmára í Kópavogi mældist það mest 287 míkrógrömm en í fyrra fór það í ríflega 1.000 míkrógrömm á rúmmetra.
Veðurfar hefur mikil áhrif á dreifingu og mælingu á svifryki. Í fyrra var kalt og stillt en í nótt stuðluðu vindar og væta að betri loftgæðum.
Mest mældist svifryksmengunin á mælum Umhverfisstofnunar við Grensásveg en loftgæði töldust í lagi í alla nótt í Mosfellsbæ og í Hafnarfirði. Mengun fór lítillega yfir heilsuverndarmörk á Akureyri um klukkan tvö í nótt en mældist aftur neðan marka skömmu síðar.
