Enski boltinn

Moyes ræddi við E­ver­ton áður en hann tók við West Ham

Anton Ingi Leifsson skrifar
David Moyes hefur byrjað vel með West Ham eftir að hafa tekið við liðinu í annað sinn.
David Moyes hefur byrjað vel með West Ham eftir að hafa tekið við liðinu í annað sinn. vísir/getty

David Moyes, sem var ráðinn stjóri West Ham, undir lok síðasta árs segir að hann hafi rætt við Everton áður en hann tók við Hömrunum.

Moyes stýrði Everton með góðum árangri frá 2002 til 2013 áður en hann færði sig um set og tók við Manchester United.

Skotinn var einn þeirra sem kom til greina er Marco Silva var rekinn sem þjálfaði Gylfa Sigurðssonar og félaga í Everton. Carlo Ancelotti tók við skútunni.

Viku síðar var Moyes ráðinn stjóri West Ham eftir að liðið hafði rekið Manuel Pellegrini.

„Ég get ekki neitað því að hafa rætt við Everton en ég neita því heldur ekki að þegar möguleikinn kom upp að taka við West Ham þá var ég mjög glaður,“ sagði Moyes.







Moyes stýrði West Ham um sjö mánaða skeið fyrir tveimur árum síðan en var svo látinn fara sumarið 2018 er samningur hans rann út. Hann vildi samninginn framlengdan en eigendurnir voru ekki á sama máli.

„Ég held að eigendurnir hafi verið nægilega stoltir til að segja komdu til baka og ég ber mikla virðingu fyrir þeim því stundum er erfitt að gera það.“

„Ég verð einnig að segja það að ég vonaðist alltaf til að koma til baka og klára starfið sem ég var byrjaður á. Mér fannst eins og ég var nýbyrjaður.“

Leikur West Ham og Everton er nú í gangi en hann hófst klukkan 15.00. Gylfi Sigurðsson er ekki með Everton vegna meiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×