Enski boltinn

Spila á sama velli og drógust saman í enska bikarnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Coventry City og Birmingham City spila bæði í bláum búningum en bara ekki eins bláum.
Coventry City og Birmingham City spila bæði í bláum búningum en bara ekki eins bláum. Getty/Jan Kruger/

Coventry City og Birmingham City ætla að skipta á milli sín aðgöngumiðunum í bikarleik þeirra um þar næstu helgi. Þetta er óvenjulegt enda eru þessi tvö félög í óvenjulegri aðstöðu.

Coventry City og Birmingham City drógust á móti hvoru öðru í 4. umferð ensku bikarkeppninnar og fer leikurinn fram 25. janúar næstkomandi.

Í enska bikarnum er það venjan að útiliðið fái aðeins lítinn hluta af miðunum í bikarleikjum en félögin ákváðu hins vegar að skipta miðunum á milli sín. Það er góð ástæða fyrir því.



Coventry City og Birmingham City eru nefnilega nágrannalið og að auki deila þau leikvangi á þessu tímabili.

Bikarleikur liðanna fer fram á St Andrew's sem er venjulega bara heimavöllur Birmingham City. Birmingham City hefur spilað á vellinum síðan 1906 eða í meira en hundrað ár.

Á þessu tímabili fékk Coventry City að spila heimaleiki sína á leikvanginum og það er Coventry sem er á heimavelli í umræddum bikarleik.

Coventry City átti í deilum um leigu á heimavelli sínum, Ricoh Arena, og svo fór á endanum að viðræðurnar leystust upp og félagið ákvað að leita til Birmingham City.

Á milli leikvanganna eru um 35 kílómetrar en Coventry er 360 þúsund manna borg, vestur af Birmingham.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×