Loftmengun í borgum í löndum Suður-Evrópu hefur náð hættumörkum undanfarna daga. Umferð dísilknúinna bifreiða hefur verið bönnuð tímabundið í ítölskum stórborgum og í Bosníu og Hersegóvínu hafa gasgrímuklæddir mótmælendur krafið stjórnvöld aðgerða.
Viðvarandi heiðríkja og stilla hefur leitt til þess að mengunarþoka hefur lagst yfir margar borgir í sunnanverðri álfunni. Í Róm, þar sem mælingar á svifryki á níu mælistöðvum af þrettán hafa verið yfir heilsuverndarmörkum í vikunni, hafa borgaryfirvöld reynt að draga úr menguninni með því að banna umferð dísilbíla, sendiferðabíla og bifhjóla á háannatíma.
Umferð annarra mengandi bifreiða hefur verið bönnuð alfarið, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Í Mílanó og Tórínó hefur verið gripið til sambærilegra aðgerða til að hreinsa loftið.
Hundruð manna kröfðust skjótra aðgerða til að draga úr mengun í borgum og bæjum í Bosníu og Hersegóvínu í gær. Margir þeirra voru með gasgrímur eða andslitsmaska. Í höfuðborginni Sarajevó hefur ríkisstjórnin haldið neyðarfundi til að ræða stöðuna. Viðvörunarástandi var lýst yfir um helgina og bílaumferð takmörkuð.
Mengunin í Sarajevó er ein sú versta á álfunni um þessar mundir ásamt höfuðborgum nágrannaríkjanna Serbíu, Kósovó og Makedóníu.