Enski boltinn

Segja að Liverpool sé tilbúið að gera tuttugu ára Þjóðverja að dýrasta leikmanni félagsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kai Havertz í leik með Bayer Leverkusen.
Kai Havertz í leik með Bayer Leverkusen. Getty/Jörg Schüler

Liverpool hefur mikinn áhuga á því að kaupa hinn tvítuga Kai Havertz frá Bayer Leverkusen og nýjustu sögusagnirnar eru að það sé eitthvað að fara að gerast í þeim málum á næstunni.

Spænska blaðið Mundo Deportivo hefur heimildir fyrir því að Liverpool sé tilbúið að bjóða 107 milljónir punda í hinn stórefnilega Kai Havertz. Hann yrði þó ekki leikmaður Liverpool fyrr en í sumar.



Kai Havertz er sókndjarfur miðjumaður sem getur spilað á miðjunni en einnig út á hægri kanti. Hans besta staða er samt talin vera í holunni.  Havertz hefur fengið mikið hrós fyrir leikskilning sem og góð hlaup inn á vítateig ala Frank Lampard.  Hann er að skora flest mörkin sín eftir slík hlaup.

Kai Havertz hefur talað um það sjálfur að hann vilji komast til stærra félags og það er nánast öruggt að hann fari frá Bayer Leverkusen í sumar. Samningur hans við Bayer Leverkusen rennur þó ekki út fyrr en í júnílok 2022.

Kai Havertz hefur þegar spilað 126 leiki fyrir aðallið Bayer Leverkusen en hann lék sinn fyrsta leik árið 2016. Hann hefur einnig spilað sjö landsleiki fyrir Þjóðverjar.

Manchester United, Barcelona og Bayern München hafa einnig mikinn áhuga á stráknum en samkvæmt frétt Mundo Deportivo þá hefur Liverpool tekið forystuna í kapphlaupinu.

Jürgen Klopp er að leita að nýjum manni fyrir Adam Lallana en samningur Lallana rennur út í sumar. Stuðningsmenn Liverpool vonast þó örugglega til þess að Kai Havertz sé nú mun betri en Adam Lallana.



Verði af slíkum kaupum þá verður Kai Havertz dýrasti leikmaður Liverpool frá upphafi. Metið á Virgil van Dijk sem Liverpool borgaði Southampton 75 milljónir punda fyrir í ársbyrjun 2018.

Kai Havertz er með 2 mörk og 1 stoðsendingu í 14 deildarleikjum með Bayer Leverkusen í vetur en hann hefur þó ekki komið að marki síðan í lok september.

Á tímabilinu í fyrra var Kai Havertz með 17 mörk og 4 stoðsendingar í 34 deildarleikjum með Bayer Leverkusen og 3 mörk o 3 stoðsendingar í 6 leikjum í Evrópudeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×