Enski boltinn

Rashford gat ekki hlaupið aðeins nokkrum dögum fyrir leikinn á móti Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marcus Rashford var sárþjáður í bakinu og varð að fara af velli í gær.
Marcus Rashford var sárþjáður í bakinu og varð að fara af velli í gær. Getty/ John Peters

Marcus Rashford entist bara í sextán mínútur eftir að hafa komið inn á sem varamaður í bikarsigrinum á Úlfunum í gær eftir að knattspyrnustjórinn Ole Gunnar Solskjær tók áhættu sem sprakk í andlitið á norska knattspyrnustjóranum.

Hinn 22 ára gamli Marcus Rashford fór af velli vegna bakmeiðsla og nú er mikil óvissa með þátttöku hans í stórleiknum á móti Liverpool um helgina.

Ole Gunnar Solskjær sagði eftir leik að leikmaðurinn sinn hafi „ekki getað hlaupið“ og það eru ekki góðar fréttir fyrir framherja. Marcus Rashford hefur skorað 22 mörk fyrir United og enska landsliðið á tímabilinu.

„Við munum skoða hann vel á næstu dögum og verðum síðan bara að sjá til með sunnudaginn,“ sagði Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United eftir leikinn.





„Ég vildi ekki spila honum. Hann fékk högg á bakið, líklegast hné eða eitthvað, en hann hefur verið í vandræðum í svolítinn tíma,“ sagði Solskjær.

„Þess vegna byrjaði hann ekki á móti Wolves en við þurfum sigurinn,“ sagði Solskjær en mun sú ákvörðun kosta liðið of mikið.

„Hann átti þátt í sigurmarkinu sem var jákvætt. En þetta sprakk í andlitið á okkur,“ viðurkenndi Solskjær.

„Hann er oftast fljótur að ná sér af meiðslum og hann getur spilað í gegnum sársauka,“ sagði Solskjær.

„Hann hefur verið í vandræðum að undanförnu en það tengist oftast því þegar hann er orðinn þreyttur. Hann var ekki nógu lengi inn á til að vera orðinn þreyttur svo að þetta gæti verið eitthvað sem gerðist í þessum leik,“ sagði Solskjær.

„Hann hefur verið í toppformi á þessu tímabili og við munum því gera allt sem í okkar valdi stendur til að hann geti spilað leikinn á sunnudaginn. Ef hann er ekki klár þá spilum við án hans,“ sagði Solskjær.

Marcus Rashford hefur spilað þrettán leiki síðan í byrjun desember, byrjað ellefu þeirra og skorað níu mörk í þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×