Handbolti

15. janúar í stórmótasögu Íslands: Strákarnir hafa ekki tapað á þessum degi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Túnisbúinn Oussama Boughanmi og Björgvin Páll Gústavsson í síðasta leik íslenska landsliðsins sem fór fram 15. janúar.
Túnisbúinn Oussama Boughanmi og Björgvin Páll Gústavsson í síðasta leik íslenska landsliðsins sem fór fram 15. janúar. EPA/GUILLAUME HORCAJUELO

Íslenska karlalandsliðið í handbolta hefur fjórum sinnum áður spilað leik í stórmóti 15. janúar, þrisvar á heimsmeistaramóti og einu sinni á Evrópumóti.

Íslensku strákarnir spila í dag lokaleik sinn í riðlinum og mótherjarnir eru Ungverjar.

Það hefur gengið mjög vel á þessum degi í gegnum tíðina því íslenska karlalandsliðið í handbolta hefur aldrei tapað stórmótaleik 15. janúar.

Þrír leikjanna hafa unnist og einn endaði með jafntefli. Sigurleikirnir komu á móti Brasilíu á Hm í Svíþjóð 2011, á móti Makedóníu á HM 2013 og á móti Noregi á EM í Póllandi 2016. Jafnteflisleikurinn var á móti Túnis á HM í Frakklandi 2017.

Ísland vann 35-25 sigur á Brasilíu 15. janúar 2011 á HM í Svíþjóð. Guðjón Valur Sigurðsson var markahæstur í íslenska liðinu með ellefu mörk en Alexander Petersson skoraði sjö mörk.

Ísland vann 23-19 sigur á Makedóníu 15. janúar 2013 á HM á Spáni. Guðjón Valur Sigurðsson var markahæstur í íslenska liðinu með níu mörk. Þórir Ólafsson og Aron Pálmarsson skoruðu báðir fimm mörk.

Ísland vann 26-25 sigur á Noregi 15. janúar 2016 á EM í Póllandi. Aron Pálmarsson var markahæstur í íslenska liðinu með átta mörk, Guðjón Valur Sigurðsson skoraði sex mörk og Björgvin Páll Gústavsson varði 16 skot.

Ísland gerði 22-22 jafntefli við Túnis 15. janúar 2017 á HM í Frakklandi. Guðjón Valur Sigurðsson var markahæstur í íslenska liðinu með fimm mörk en þeir Rúnar Kárason og Ómar Ingi Magnússon skoruðu báðir fjögur mörk. Aron Rafn Eðvarðsson varði 14 skot í markinu.

Þrír mismunandi þjálfarar hafa stýrt íslenska liðinu í þessum fjórum leikjum, Aron Kristjánsson (2 leikir), Geir Sveinsson og Guðmundur Guðmundsson en Guðjón Valur Sigurðsson var fyrirliði í þeim öllum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×