Handbolti

Aron og Alexander mættu saman í við­tal og fóru á kostum

Anton Ingi Leifsson skrifar

Alexander Petersson og Aron Pálmarsson mættu saman í viðtal eftir sigur Íslands á Rússlandi í dag.

Ísland hefur þar af leiðandi unnið fyrstu tvo leiki sína á mótinu.

„Við mættum hrikalega vel stemmdir inn í þennan leik. Það var mikið undir og talað um það hvað við höfum verið að klúðra á síðustu mótum. Við mættum 120% og sýndum það að við ætluðum ekki að klúðra þessu,“ sagði Aron.

„Við sýndum það að við erum orðnir alvöru lið og kafsigldum þá,“ bætti Aron við.

Alexander var magnaður varnarlega og hann var sáttur. Aðspurður hvort að vörnin hafi minnt á Peking svaraði hann:

„Ég man það ekki. Það er svo langt síðan,“ sagði hann og hló áður en hann hélt áfram.

„Strákarnir gerðu þetta mjög vel. Allir eru að berjast eins og ljón. Við erum bara tveir gamlir karlar,“ sagði Alexander sem brosti til Arons.

Aron komst ekki á blað í dag eftir magnaðan leik á laugardaginn og Alexander skilur það enda var Aron tekinn úr umferð.

„Hvaðan átti hann að skjóta? Af 15-20 metrum? Sjáðu að Viggó kemur inn og allir hinir. Geggjaðir leikmenn og gaman að spila með þeim.“

Aron segir að innkoma strákanna af bekknum sé jákvæð.

„Það er ekki sjálfgefið að koma inn af bekknum í leik sem er svona þægilegur og halda svona standard. Þeir sýndu það strákarnir að þeir eru helvíti góðir og þeir gáfu í ef eitthvað var. Það er mjög jákvætt fyrir okkur sem lið og þá sem einstaklinganna.“

Alexander segir að líkaminn hafi það fínt.

„Ég er bara góður. Við verðum svo bara sjá til. Ég þarf að jafna mig og svo sjáum við til.“

Aron vill að liðið haldi uppteknum hætti í síðasta leiknum í riðlinum gegn Ungverjum á miðvikudag.

„Við sýndum í dag að við getum haldið standard. Erum nú búnir að gera það tvo leiki í röð og nú er bara bæta einum leik við. Mæta alveg eins í næsta leik.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×