Handbolti

Sigvaldi: Týpískt að klúðra lokaskotinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar

Sigvaldi Björn Guðjónsson átti frábæran leik í hægra horni Íslands í sigrinum glæsilega á Rússlandi á EM í Svíþjóð í kvöld. Sigvaldi fékk tækifærið í byrjunarliði Íslands og nýtti það vel.

„Ég fékk að vita rétt fyrir leik að ég myndi byrja. Ég vildi gefa allt sem ég átti í leikinn og gerði það,“ sagði hann í viðtali við Henry Birgi Gunnarsson eftir leik

Sigvaldi nýtti fyrstu sex skotin sín í leiknum en síðasta skotið hans geigaði.

„Ég stóð í horninu fyrir þetta skot og hugsaði með mér að þessu ætlaði ég ekki að klúðra. Það er svo týpískt að það hafi gerst,“ sagði hann í léttum dúr.

Hann segist ekki hafa verið stressaður fyrir leikinn og því hlutverki sem honum var treyst fyrir. „Þetta er bara handbolti og ég hugsaði að ég ætlaði bara að njóta mín og hafa gaman. Það er líka ekkert mál með þessu liði og þessum strákum.“

„Við erum allir góðir vinir, tölum mikið saman og skemmtum okkur utan vallar. Það er líka frábær stuðningur úr stúkunni, við heyrum vel í þeim og það hjálpar okkur mikið.“

Hann segir að það verði ekki vandamál að halda einbeitingu.

„Við viljum þetta svo mikið. Við verðum að vera einbeittir. Nú höfum við gaman í klukkustund og svo byrjum við að hugsa um næsta leik. Við erum í þessu til að vinna.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×