Stefnt er að því að opna vínbar við Óðinstorg með vorinu. Það staðfestir fjárfestirinn Birgir Þór Bieltvedt í samtali við Vísi. Vín og léttir réttir verða á boðstólnum en staðurinn verður rekinn samhliða Snaps.
Birgir Þór seldi á síðasta ári húsnæði við Bergstaðastræti 2 þar sem hann velti fyrir sér um tíma að opna vínbar.
„Hugmyndin fluttist eiginlega frá Bergstaðastræti upp á Óðinsstræti,“ segir Birgir Þór.

Vínbarinn verður á horninu þar sem kaffihúsið C is for Cookie var starfrækt þar til í febrúar.
„Ég tók það húsnæði á leigu og taldi að það væri kannski aðeins skemmtilegra að hafa vínbarinn við hliðina á Snaps heldur en að hafa staðina hvorn á sínum staðnum.“
Framkvæmdir hafa staðið yfir á Týsgötu og Óðinsgötu og dregist á langinn.
„Þær hafa tekið miklu lengri tíma en átti að taka og það er enn verið að vinna í þessu torgi. En við erum að vonast til þess að geta opnað barinn með vorinu.“

Hann segir ekki tímabært að upplýsa að fullu um hvernig starfsemin verði. Að öðru leyti en því að Snaps muni eiga staðinn og hann verði rekinn í anda hans. Fókusinn verði á vín og létta rétti.
Athygli vakti í febrúar þegar C is for Cookie skellti í lás. Rekstraraðilar kaffihússins sögðust ekki geta mætt kröfum eigenda um 100 prósenta hækkun á leigu. Leigan fór úr 315 þúsund krónum á mánuði í 650 þúsund krónur.
„Þegar þessi upphæð kom á borðið var auðséð með það að það var of langt á milli aðila til að fara eitthvað lengra með þetta,“ sagði Daníel Tryggvi Daníelsson, eigandi C is for Cookie.

Birgir segist ekki hafa kynnt sér hver leiga fyrri leiguaðila hafi verið.
„Ég fékk bara einhvern leigusamning sem ég taldi vera sanngjarnan og tók því. Ég var ekkert að grafa í gamla leigusamninga,“ segir Birgir.
Vel geti verið að leigan sem fyrri aðilar hafi greitt hafi verið há fyrir þann rekstur sem þeir voru með.
„Okkar fókus verður meira á vín. Við verðum með breitt úrval af víni og létta rétti. Látum þessi tvö konsept vinna vel saman.“