Handbolti

Mar­tröð, hefnd Guð­mundar og þjófnaður meðal um­sagna dönsku miðlanna eftir tapið gegn Ís­landi

Anton Ingi Leifsson skrifar
Mikkel Hansen súr og svekktur á meðal
Mikkel Hansen súr og svekktur á meðal vísir/epa

Danskir miðlar voru ekki hrifnir af leik danska landsliðsins í kvöld gegn Íslandi en Ísland vann leik nágrannaþjóðanna með einu marki.

Lesa má margar skemmtilegar umfjallanir í dönskum miðlum fyrir okkur Íslendinga.

„Danir ollu vonbrigðum í opnunarleiknum á EM,“ er fyrirsögnin hjá TV2Sport. Þar segir að Danir hafi verið mun sigurstranglegri aðilinn en allt hafi fokið út í veður og vind.

BT var ekki hrifið af danska landsliðinu í dag og gefur leikmönnum liðsins ekki háar einkunnir. Markvörðurinn Jannick Green fær aldeilis að finna fyrir því en hann fær lægstu einkunnina.

Einnig setur blaðið saman þá þrjá hluti sem blaðið lærði í leiknum og það fyrsta er almennt áhyggjuefni. Þeir hafa áhyggjur af því að margir leikmenn séu að koma inn í mótið hálfmeiddir.

Númer tvö var það svo að Guðmundur fékk sína hefnd á Nikolaj Jacobsen en sá síðarnefndi tók við af Guðmundi bæði sem þjálfari Rhein-Neckar Löwen og hjá Danmörku.







„Flýgur hátt, þá er fallið langt,“ skrifar ríkismiðillinn, DR, eftir leikinn og segir að þetta nú sé kominn alvöru pressa á danska liðið.

„Martröð í Malmö,“ skrifar miðillinn einnig og segir að þetta hafi verið versta mögulega byrjun sem hægt hefði verið að hugsa sér.







Ekstra Bladet skrifar í grein sinni um leikinn að leikurinn hafi ekki verið jafn erfiður og búist var við heldur rúmlega það.

Þeir eru heldur ekki sáttir með dómara leiksins en þeir segja að dómurinn umdeildi undir lok leiksins hafi verið klár þjófnaður er flautað var fríkast er þrjár sekúndur voru eftir.





Ekstra Bladet fjallar einnig um í umfjöllun sinni að Guðmundur Guðmundsson hafi verið vel lifandi á hliðarlínunni. Leikurinn hafi þýtt enn meira fyrir hann og hann hafi hlaupið upp og niður eftir hliðarlínunni.

„Það er enginn efi á því að Ísland elskar ekkert meira en að vinna nákvæmlega Danmörk,“ segir í lok fréttinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×