Handbolti

Viggó: Mig hefur dreymt um þessa stund

Henry Birgir Gunnarsson í Malmö skrifar
Viggó Kristjánsson.
Viggó Kristjánsson.

Nýliðinn af Seltjarnarnesinu, Viggó Kristjánsson, mun fá nokkuð stórt hlutverk á EM en hann deilir skyttustöðunni hægra megin með Alexander Peterssyni.

„Mér líður mjög vel og fullur tilhlökkunar. Það er komið smá stress en maður verður að reyna að halda sér rólegum,“ sagði Viggó en hann mun spila fyrir framan um 13 þúsund manns í kvöld.

„Að sjálfsögðu hefur mig dreymt um þessa stund. Maður verður að njóta þess og gera sitt besta. Ég er vel undirbúinn sem og liðið. Það getur auðvitað allt gerst.“

Viggó hefur lengi litið upp til Alexanders og græðir mikið á því að spila með honum.

„Ég get lært helling af honum enda spilað á toppnum í 15 ár. Ég verð í svipuðu hlutverki hér og hjá mínu félagsliði. Koma inn og reyna að hafa jákvæð áhrif á leikinn,“ sagði skyttan af Nesinu en átti hann von á því að sofa vel?

„Ég ætla rétt að vona það. Auðvitað er tilhlökkun en er nokkuð rólegur. Ég verð rólegur allavega fram að hádegi.“

Klippa: Viggó mætir á stóra sviðið



Fleiri fréttir

Sjá meira


×