Handbolti

Guðjón Valur: Á liðsfélögunum allt að þakka

Henry Birgir Gunnarsson í Malmö skrifar
Guðjón Valur í Malmö Arena.
Guðjón Valur í Malmö Arena.

Hinn fertugi landsliðsfyrirliði, Guðjón Valur Sigurðsson, er mættur á sitt 22. stórmót á ferlinum sem er ótrúlegur áfangi. Það sem er kannski enn ótrúlegra er að hann er ekkert að gefa eftir.

„Það sem drífur mig áfram er áhuginn. Ég hef ótrúlega gaman af þessu. Þegar maður mætir og sér áhuginn stigmagnast þá er þetta ótrúlega drífandi. Þetta eru verðlaunin að standa sig ágætlega með sínu félagsliði og halda sér í formi,“ sagði Guðjón Valur í Malmö Arena á lokaæfingu landsliðsins fyrir leikinn gegn Dönum í kvöld.

Ótrúlegur ferill Guðjóns Vals hefur skilað honum mörgum metum en hann þvertekur fyrir að spá mikið í þeim.

„Þetta er bara eitt mót og leikur í einu. Það er gaman að setja einhver met en það er líka gaman að sjá liðsfélagana þegar maður nær áföngum því þetta er liðsíþrótt og ég á liðsfélögunum allt að þakka. Markmiðið er alltaf gengi liðsins,“ segir fyrirliðinn en hvernig líst honum á liðið sem er komið til Svíþjóðar núna?

„Mér líst mjög vel á þetta. Það eru spennandi tímar núna og fram undan. Það fæðist bjartsýni hjá manni í janúar en hversu langt það fleytir okkur veit ég ekki. Það er líka þessi óvissa sem er svo gaman að taka þátt í.“

Heimsmeistararnir með meirihluta hússins bíða í kvöld og það er spennandi og krefjandi verkefni.

„Það er ótrúlega gaman og líka gott að það séu 1.000 Íslendingar. Við höfum lagt leikinn vel upp og ákveðnar áherslur í vörn og sókn sem eiga að hjálpa okkur. Útilínan þarf að komast í stöðu maður á mann. Þeir eru mjög sterkir þar.“

Klippa: Guðjón Valur á enn einu stórmótinu

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×