Handbolti

Hans: Foreldrar mínir styðja Ísland og væru sátt við jafntefli

Henry Birgir Gunnarsson í Malmö skrifar
Hans Lindberg.
Hans Lindberg.

Hinn íslenskættaði Hans Lindberg verður í liði Dana gegn Íslandi á morgun. Hann á íslenska foreldra sem verða að sjálfsögðu í stúkunni.

„Ég held að þau vilji fá jafntefli. Þau hvetja auðvitað Ísland og mig líka. Þau væru því sátt við jafntefli,“ segir Hans en foreldrar hans eru Sigrún Sigurðardóttir og Tómas Erling Lindberg Hansson, bæði úr Hafnarfirði. Faðir hans á þó færeyska foreldra og þaðan er ættarnafnið komið. Sjálfur er hann skráður sem Hans Óttar Tómasson í íslenskri þjóðskrá.

„Það er alltaf sérstakt að spila gegn Íslandi. Ég á fjölskyldumeðlimi á Íslandi og reyni að nota þetta sem hvatningu. Þetta verður gaman.“

„Það verður vonandi gott að byrja mótið gegn Íslandi en við vitum að Ísland er erfiður andstæðingur og hefðum frekar viljað mæta þeim síðar á mótinu. Þeir spila alltaf í botni og berjast fyrir öllu,“ segir Hans sem er orðinn 38 ára og því ekki mikið eftir af ferlinum.

„Ég veit ekki hvort þetta sé síðasta mótið. Það kemur bara í ljós hvernig þetta verður í framhaldinu. Mér líður vel í dag og engin meiðsli.“

Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar var farið rangt með nafn Sigrúnar Sigurðardóttur, móður viðmælanda. Beðist er velvirðingar á mistökunum.

Klippa: Hans spenntur fyrir Íslandsleiknum

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×