Dagný Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Cintamani, segist vongóð um að verslanir fyrirtækisins opni aftur innan tíðar. Stjórn Cintamani sendi frá sér tilkynningu fyrir hádegi í dag þar sem fram kom að fataframleiðandinn hafi verið gefinn upp til gjaldþrotaskipta. Reksturinn hafi gengið brösuglega undanfarin ár og hefur reglulega verið reynt að selja hann.

Í samtali við Vísi segist Dagný lítið mega tjá sig um framvindu dagsins. Íslandsbanki sé búinn að leysa til sín allar eignir félagsins og hefur nú sett þær á sölu, eins og greint var frá á heimasíðu bankans í hádeginu. Dagný segist vita til þess að áhugi sé á sölunni og að nokkur tilboð hafi borist í eignirnar.
Sjá einnig: Sjá fram á betri tíma eftir mögur ár
Því segist Dagný ekki gera ráð fyrir öðru en að verslanir Cintamani verði keyptar og opni fljótlega aftur. Fólk sem á gjafakort í versluninni ætti því að geta leyst þau út áður en langt um líður. Aðspurð um hvað þetta þýði fyrir starfsfólk Cintamani segir Dagný ekki geta fullyrt neitt í þeim efnum. Það muni ráðast af söluferlinu.
Upplýsingarnar sem fengust frá Íslandsbanka voru á almennum nótum: Eignir Cintamani séu í opnu söluferli í samræmi við verklagsreglur bankans og er ferlið enn yfirstandandi. Tilboðsfrestur er til 3. febrúar næstkomandi og verður tekin afstaða til tilboða eftir 5. febrúar. Frekari upplýsingar sé því ekki hægt að veita á þessari stundu.