Enski boltinn

Leicester ekki komist í úrslit deildabikarsins síðan Arnar lék með liðinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arnar lék alls 39 leiki fyrir Leicester og skoraði fjögur mörk.
Arnar lék alls 39 leiki fyrir Leicester og skoraði fjögur mörk. vísir/getty

Leicester City sækir Aston Villa heim í seinni leik liðanna í undanúrslitum enska deildabikarsins í kvöld. Fyrri leikurinn í Leicester fór 1-1.

Villa komst síðast í úrslitaleik deildabikarsins 2010 þegar liðið tapaði fyrir Manchester United, 2-1.

Leicester hefur aftur á móti ekki komist í úrslitaleik deildabikarsins síðan 2000, eða í 20 ár. Arnar Gunnlaugsson, núverandi þjálfari Víkings R., lék þá með Leicester.

Í úrslitaleiknum sigraði Leicester B-deildarlið Tranmere Rovers, 2-1, með tveimur mörkum fyrirliðans Matts Elliott. Leicester var síðasta liðið sem vann deildabikarinn á gamla Wembley.

Matt Elliott, hetja Leicester í úrslitaleik deildabikarsins fyrir 20 árum, lyftir bikarnum.vísir/getty

Arnar var ekki í leikmannahópi Leicester í úrslitaleiknum en lék tvo leiki í deildabikarnum tímabilið 1999-2000. Leicester vann báða þessa leiki, gegn Leeds United og Fulham, í vítaspyrnukeppni og í báðum tilfellum skoraði Arnar úr fyrstu spyrnu Leicester.

Skömmu eftir úrslitaleik deildabikarsins var Arnar lánaður til Stoke City sem var þá í eigu Íslendinga. Arnar vann Framrúðubikarinn með liðinu vorið 2000.

Arnar var í byrjunarliði Stoke í 1-2 sigri á Bristol City. Guðjón Þórðarson var þjálfari Stoke og tveir aðrir Íslendingar, Bjarni Guðjónsson og Brynjar Björn Gunnarsson, voru í byrjunarliði Stoke í leiknum.

Leicester komst þrisvar sinnum í úrslit deildabikarsins undir stjórn Martins O'Neill í kringum aldamótin og vann titilinn í tvígang. Leicester hefur alls þrisvar sinnum unnið deildabikarinn (1964, 1997, 2000).

Leikur Aston Villa og Leicester hefst klukkan 19:45 í kvöld og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2.

Arnar í baráttu við Frank Lampard, þá leikmann West Ham United.vísir/getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×