Enski boltinn

Segir Klopp eiga að stýra Liverpool gegn Shrewsbury: „Myndir af honum með bjór á Ibiza verða á öllum forsíðum“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Klopp verður fjarri góðu gamni þegar Liverpool tekur á móti Shrewsbury Town í byrjun næsta mánaðar.
Klopp verður fjarri góðu gamni þegar Liverpool tekur á móti Shrewsbury Town í byrjun næsta mánaðar. vísir/getty

Jamie Carragher segir að Jürgen Klopp ætti að stýra Liverpool í endurtekna leiknum gegn Shrewsbury Town í 4. umferð ensku bikarkeppninnar í næsta mánuði.

Liverpool missti niður tveggja marka forystu gegn Shrewsbury á New Meadow í gær. Leikar fóru 2-2 og liðin þurfa því að mætast aftur á Anfield.

Endurtekni leikurinn verður fjórða eða fimmta febrúar, eða á meðan vetrarfríi í ensku úrvalsdeildinni stendur. Eftir leikinn í gær sagði Klopp að enginn úr aðalliðinu myndi spila endurtekna leikinn og hann myndi ekki einu sinni stýra Liverpool í leiknum.

Neil Critchley verður á hliðarlínunni eins og í deildabikarleiknum fræga gegn Aston Villa í síðasta mánuði. Þar stillti Liverpool upp mjög ungu liði enda var aðalliðið að spila í undanúrslitum á HM félagsliða daginn eftir.

Carragher styður þá ákvörðun Klopps að hvíla leikmenn aðalliðsins í endurtekna leiknum gegn Shrewsbury. Það sé ekki hægt að setja leiki á dagskrá á meðan vetrarfríi stendur.

Carragher segir hins vegar að Klopp ætti að stýra Liverpool í leiknum. Ungu leikmennirnir yrðu himinlifandi og myndir af Þjóðverjanum með bjór í hönd á Ibiza myndu rata á allar forsíður.



Þetta er í fyrsta sinn sem vetrarfrí verður í ensku úrvalsdeildinni. Liverpool verður í fríi 2.-16. febrúar.

Fjögur lið úr ensku úrvalsdeildinni þurfa að leika aftur í 4. umferð bikarkeppninnar eftir að hafa gert jafntefli um helgina; Liverpool, Newcastle United, Tottenham og Southampton.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×