Enski boltinn

Viðræður um yfirtöku Sádana á Newcastle ganga vel

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsmenn Newcastle United eru ekki ánægðir með eigandann Mike Ashley.
Stuðningsmenn Newcastle United eru ekki ánægðir með eigandann Mike Ashley. Getty/Chris Brunskill

Það lítur allt út fyrir það að enska úrvalsdeildarfélagið Newcastle United verði fljótlega komið í eigu valdhafa í Sádí Arabíu ef marka má fréttir frá Englandi.

Viðræður á milli Mike Ashley, eiganda Newcastle United, og fjárfestingarsjóðs ríksins í Sádí Arabíu hafa verið í gangi í nokkra mánuði en nú er kominn góður gangur í þær samkvæmt fréttum breska ríkisútvarpsins.



Sádarnir munu mögulega borga Mike Ashley 340 milljónir punda fyrir félagið eða rúma 55 milljarða íslenskra króna.

Það eru taldar nú miklar líkur á að samkomulag náist um söluna en um leið eru þetta flóknar viðræður sem gætu auðveldlega farið út um þúfur.

Heimildarmaður breska ríkisútvarpsins segir að Mike Ashley þurfi ekki að selja félagið og sé því óútreiknanlegur í þessum viðræðum.

Viðskiptakonan og fjárfestirinn Amanda Staveley er sú sem hafði samband við krónprinsinn í Sádí Arabíu með möguleikanna á því að hann gæti keypt sér eitt stykki enskt úrvalsdeildarfélag. Amanda Staveley reyndi sjálf að kaupa Newcastle United fyrir tveimur árum en án árangurs.

Staveley hefur reynslu að svona viðræðum því hún aðstoðaði Sheikh Mansour að kaupa Manchester City árið 2008 og fór einnig fyrir fjárfestingarfélaginu frá Dúbaí sem reyndi að kaupa Liverpool árið 2008.

Hinn 55 ára gamli Mike Ashley keypti Newcastle fyrir 134,4 milljónir punda árið 2007 og er því líklega að fara að tvöfalda þá fjárfestingu sína. Félagið hefur fallið tvisvar úr ensku úrvalsdeildinni í tíu ára tíð Ashley og stuðningsmenn félagsins eru duglegir að mótmæla því hvernig hann hugsar um félagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×