Handbolti

Króatar í úrslit eftir tvíframlengdan spennutrylli

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Króatar fagna í leikslok.
Króatar fagna í leikslok. vísir/epa

Króatía er komið í úrslit á Evrópumótinu í handbolta eftir sigur á Noregi, 29-28, í tvíframlengdum spennutrylli.

Zeljko Musa skoraði sigurmarkið þegar nokkrar sekúndur voru eftir. Það var hans eina mark í leiknum og aðeins þriðja markið hans á EM.



Króatía mætir annað hvort Spáni eða Slóveníu í úrslitaleiknum á sunnudaginn.

Domagoj Duvnjak var markahæstur Króata með átta mörk. Sander Sagosen átti stórleik í norska liðinu og skoraði tíu mörk. 

Króatar voru lengst af skrefinu á undan en komumst aldrei meira en þremur mörkum yfir. Staðan í hálfleik var 10-12, Króatíu í vil.

Króatar komust þremur mörkum yfir í upphafi seinni hálfleiks, 12-15, og fengu tækifæri til að ná fjögurra marka forskoti en Thorbjörn Bergerud varði frá Igor Karacic úr hraðaupphlaupi.



Noregur skoraði næstu þrjú mörk, jafnaði í 15-15 og Sagosen kom Norðmönnum svo yfir, 17-16, í fyrsta sinn síðan í stöðunni 4-3.

Lokamínúturnar voru æsispennandi. Magnus Gullerud kom Norðmönnum yfir, 22-21, og þeir fengu tækifæri til að komast tveimur mörkum yfir en Matetj Asanin varði víti frá Sagosen.

Duvnjak skoraði næstu tvö mörk og kom Króatíu yfir, 22-23. Noregur fékk vítakast en Asanin varði frá Magnusi Jondal.



Bergerud varði frá Duvnjak í næstu sókn Króata og Jondal jafnaði í 23-23. Króatar fengu lokasóknina en vörn Norðmanna varði skot Duvnjaks.



Hvort lið gerði aðeins eitt mark í fyrri hálfleik framlengingarinnar og staðan að honum loknum var jöfn, 24-24.

Luka Stepancic kom Króatíu yfir í seinni hálfleik fyrri framlengingar en Sagosen jafnaði með sínu tíunda marki. Kristian Björnsen kom Noregi yfir úr hraðaupphlaupi, 26-25, en Króatía fékk vítakast í þann mund sem leiktíminn rann út. Duvnjak fór á vítalínuna, skoraði og því þurfti að framlengja aftur.



Bæði lið skoruðu tvö mörk í fyrri hálfleik seinni framlengingarinnar. 

Í þeim seinni voru mistökin fjölmörg og aðeins eitt mark skorað. Það gerði áðurnefndur Musa og tryggði Króötum sæti í úrslitum EM í fyrsta sinn síðan 2010.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×