Enski boltinn

Tranmere Rovers vann Watford | Mæta Man Utd á sunnudaginn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Leikmenn Tranmere fagna fyrra marki sínu í kvöld.
Leikmenn Tranmere fagna fyrra marki sínu í kvöld. Vísir/Getty

Tranmere Rovers, sem leikur í League 1 eða C-deild ensku knattspyrnunnar gerði sér lítið fyrir og lagði úrvalsdeildarlið Watford í FA bikarnum í kvöld eftir framlengdan leik en liðin voru að mætast í endurteknum leik eftir að hafa gert jafntefli síðast.

Lokatölur kvöldsins 2-1 og Tranmere Rovers því að fara mæta Manchester United á sunnudaginn kemur. Leikurinn fer fram á Prenton Park, heimavelli Tranmere.

Nigel Pearson, þjálfari Watford, gaf öllum af sínum helstu leikmönnum frí í dag og sást það best á treyjunúmerum þeirra sem byrjuðu leikinn.

Daniel Bachmann, númer 35, byrjaði í markinu en hann er þriðji markvörður liðsins. Þá voru Mason Barrett (41) og Bayli Spencer-Adams (51) í vörninni. Á miðjunni voru svo þeir Tom Dele-Bashiru (24), Callum Whelan (42) og Joseph Hungbo (44).

Það kom samt sem áður óvart þegar Emmanuel Monthe kom heimamönnum yfir þegar tíu mínútur voru til hálfleiks. Var það eina mark fyrri hálfleiks og heimamenn því 1-0 yfir þegar liðin gengu til búningsherbergja. 

Peason setti Kaylen Hinds inn í hálfleik og hann þakkaði traustið með því að jafna metin á 68. mínútu. Fleiri urðu mörkin ekki í venjulegum leiktíma og því þurfti að framlengja.

Þar reyndist Connor Jennings hetja heimamanna en hann skoraði sigurmark leiksins á 104. mínútu og þar við sat. Lokatölur 2-1 og Tranmere fær Ole Gunnar Solskjær og lærisveina hans í Manchester United í heimsókn á sunnudaginn kemur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×