Tilraunaverkefni um áhrif hjónaskilnaða á börn verður ýtt úr vör í næsta mánuði. Um er að ræða valfrjálst námskeiðætlað foreldrum sem standa í skilnaði með það að markmiði að fækka ágreiningsmálum. Gangi verkefnið vel hyggst barnamálaráðherra skoða með hvaða hætti úrræðið yrði lögfest.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur skrifað undir samning vegna tilraunaverkefnis um innleiðingu skilnaðarráðgjafar fyrir foreldra á Íslandi. Verkefnið er að danskri fyrirmynd og verður því ýtt úr vör í næsta mánuði.
Skilnaðarráðgjöfin felst annars vegar í rafrænu námskeiði og hins vegar í viðtalsráðgjöf með sérfræðingi hjá félagsþjónustu um áhrif skilnaðar á líðan barna og foreldra. Gert er ráð fyrir að félagsþjónusta sveitarfélaga taki verkefnið að sér en áætlað er að námskeiðið verði foreldrum að kostnaðarlausu.
„Hugsunin er að byrja með samstarfsverkefni við tvö til þrjú sveitarfélög. Þar verður boðið upp á þetta, sjá hvort að það reynist ekki með sama hætti og í Danmörku og í framhaldi getum við boðið upp á þetta á landsvísu,“ sagði Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.
Í Danmörku hefur úrræðið tryggt bætta andlega vellíðan foreldra sem ganga í gegnum skilnað.
Markmið ráðgjafarinnar er að fækka ágreiningsmálum foreldra og veita þeim aðstoð við að vinna úr tilfinningalegri togstreitu. Forsjár- og umgengisdeilur við skilnað séu of algengar.
„Það sem gerist allt of oft í íslensku samfélagi eins og víðar er að börnin verði eins konar reipi í reipitogi á milli foreldrana en þetta úrræði hefur sýnt sig að dragi úr því,“ sagði Ásmundur Einar.
Í Danmörku hefur úrræðið verið lögfest, en þegar foreldrar, sem eiga barn undir 18 ára aldri, sækja um skilnað þar í landi er þeim skylt að sæta námskeiðið.
„Mér finnst rétt næsta skref, ef þetta kemur vel út, að það yrði skoðað með hvaða hætti þetta yrði lögfest,“ sagði Ásmundur.
Innlent