Fjallgöngumaðurinn John Snorri Sigurjónsson og gönguhópur hans náði í grunnbúðir K2 í dag. John Snorri stefnir á að verða fyrsti maðurinn til að klífa tind fjallsins að vetrarlagi.
Í færslu á Facebook-síðu Johns Snorra kemur fram að hópurinn hafi komist í grunnbúðirnar eftir níu daga á Baltoro-jöklinum. Um 27 stiga frost sé í búðunum og þreyta sé í mannskapnum eftir erfiða daga. Á morgun segir John Snorri að hópurinn hvíli sig fyrir framhaldið en á föstudag standi til að hefja ferðina upp í efri grunnbúðir fjallsins. Hlutar hópsins skiptist á að gera öruggan slóða upp í efri búðirnar.
Erfiðar aðstæður torvelduðu John Snorra og félögum leiðina að grunnbúðunum. Á vefsíðu Apricot Tours í Pakistan kemur fram að sökum aðstæðna hafi leið sem átti að taka sjö klukkustundir undir venjulegum aðstæðum tekið hópinn þrjá daga. Grunnbúðirnar þar sem hópurinn hefst nú við er í tæplega fimm þúsund metra hæð yfir sjávarmáli.
Tindur K2, sem er á landamærum Kína og Pakistans, er sá annar hæsti á jörðinni á eftir Everest-fjalli, rúmlega 8.600 metrar að hæð. Enginn hefur náð að klífa tindinn að vetrarlagi. John Snorri komst á tindinn árið 2017 en þá að sumri til.