Handbolti

Svíar komnir á blað í milliriðlinum eftir sigur á Ungverjum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Varnarleikur beggja liða var til fyrirmyndar í kvöld.
Varnarleikur beggja liða var til fyrirmyndar í kvöld. Vísir/EPA

Svíþjóð landaði loks sigri í milliriðli á Evrópumótinu í handbolta er liðið lagði Ungverja af velli með sex marka mun í Malmö í kvöld. Lokatölur leiksins 24-18 sem þýðir að Noregur hefur þar með tryggt sér sæti í undanúrslitum en Norðmenn lögðu okkur Íslendinga af velli fyrr í dag, 31-28.

Svíar voru án sigurs og án stiga fyrir leik sinn gegn Ungverjalandi í kvöld en þeir sænsku höfðu tapað fyrir Portúgal og Noregi. Á sama tíma voru Ungverjar að berjast um sæti í undanúrslitum mótsins.

Sóknarleikur beggja liða gekk brösuglega framan af leik í kvöld en þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður voru aðeins átta mörk komin í leikinn, fjögur á hvort lið. Það virtist sem liðin yrðu jöfn þegar flautað yrði til hálfleiks en Lucas Pelle skoraði síðasta mark hálfleiksins í blálokin sem þýddi að Svíar voru einu marki yfir þegar flautan gall, staðan þá 10-9.

Sama var upp á teningnum í síðari hálfleik en Svíar þó alltaf hænuskrefi á undan Ungverjum. Bence Banhidi tókst þó að jafna metin í stöðunni 18-18 þegar 13 mínútur voru til leiksloka. Eftir það gekk ekkert upp hjá Ungverjum en þeir skoruðu ekki mark síðustu 13 mínútur leiksins á meðan Svíar skoruðu sex. Lauk leiknum því með sex marka sigri Svía, 24-18. Þeirra fyrsti í milliriðlinum.

Jim Gott­fridson [sjá mynd] og Lucas Pellas skoruðu sex mörk hvor fyr­ir heimamenn í Svíþjóð. Þá skoraði Zoltán Szita fjög­ur fyr­ir Ung­verja­land. 

Svíþjóð mætir Íslandi klukkan 19:30 annað kvöld í lokaleik beggja liða á mótinu. Ungverjar halda enn í von um sæti í undanúrslitum en þeir þurfa sigur gegn Portúgal á morgun sem og að treysta á Norðmenn gegn Slóvenum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×