Sönghópurinn Keiino sem tók þátt fyrir hönd Noregs í Eurovision í fyrra kemur fram á úrslitakeppni Söngvakeppninnar 29. febrúar í Laugardalshöll. Þetta kemur fram í tilkynningu frá RÚV.
Lagið Spirit in the sky í flutningi Keiino hreppti 6. sætið í keppninni í Tel Aviv í fyrra þegar atkvæði dómnefnda og almennings voru talin saman en hefði sigrað keppnina ef aðeins almenningur hefði kosið. Lagið hefur notið mikilla vinsælda hér á landi en lagið hlaut flest atkvæða íslenskra kjósenda í keppninni.
Í fyrra komu Eurovision-stjörnurnar Eleni Foureira fram á úrslitakeppni Söngvakeppninnar en síðastliðin ár hafa m.a. Måns Zelmerlöw, Loreen, Sandra Kim og Alexander Rybak glatt íslenska sjónvarpsáhorfendur í Höllinni.
Þann 8. febrúar verður fyrra undanúrslitakvöldið og síðan verður síðara 15. febrúar.
Þann 29. febrúar fer síðan fram úrslitakvöldið þar sem fjögur eða fimm lög keppa til úrslita og þar kemur í ljós hvaða lag verður framlag Íslendinga í Eurovision 2020 í Rotterdam í maí. Keiino kemur fram auk þess sem boðið verður upp á önnur skemmtiatriði.
Miðasala á Söngvakeppnina 2020 hefst fimmtudaginn 23. janúar kl. 12.00 á Tix.is.