Enski boltinn

Evra talaði eins og margir stuðningsmenn Man. United hugsa eflaust í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Patrice Evra með Sir Alex Ferguson og enska meistaratitilinn.
Patrice Evra með Sir Alex Ferguson og enska meistaratitilinn. Getty/ Matthew Peters

Það er ekki gott að vera stuðningsmaður Manchester United í dag eftir að liðið lenti 30 stigum á eftir erkifjendum sínum í Liverpool með því að tapa á Anfield í gær.

Það er eitt að vera þrjátíu stigum frá toppsæti deildarinnar en það er annað að horfa upp á erkifjendur sína vera að rúlla upp ensku úrvalsdeildinni.

Patrice Evra er enn harður stuðningsmaður félagsins en Frakkinn lék með Manchester United í átta ár frá 2006 til 2015 og varð fimm sinnum enskur meistari á tíma sínum á Old Trafford.

Á tíma hans með Manchester United vann félagið enska titilinn í sextánda (2007), sautjánda (2008), átjánda (2009), nítjánda (2011) og tuttugasta (2013) skiptið og tók þar með efsta sætið af Liverpool sem sigursælasta félagið í sögu efstu deildar á Englandi.



Liverpool vann sinn átjánda meistaratitil vorið 1990 en hefur ekki unnið hann síðan þá. Biðin hefur verið löng og erfið fyrir stuðningsmenn Liverpool en þeim mun skemmtilegri fyrir kollega þeirra í Manchester United.

Þegar Liverpool vann ellefu meistaratitla á árunum 1973 til 1990 þá vann Manchester United engan og stuðningsmenn liðsins þurftu eflaust að þola háðsglósur. Þetta snerist við á síðustu þrjátíu árum.

Nú óttast margir stuðningsmenn Manchester United viðbrögð kollega þeirra í stuðningsmannasveit Liverpool þegar titilinn fer loksins á loft á Anfield. Nokkur klúður á lokasprettinum á síðustu árum hafa lengt biðina en Liverpool liðið getur varla klúðrað titlinum úr þessu.

Patrice Evra talaði því á Sky Sports í gær eins og margir stuðningsmenn Man. United hugsa eflaust í dag. Hvernig verða fyrstu fimm mánuðirnir eftir að Liverpool verðir loksins enskur meistari og minnkar forskot United á titlalistanum aftur í einn titil? Það má búast við því að United menn fá eitthvað að heyra af því á samfélagsmiðlum sem og í daglegu tali.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×