Enski boltinn

Ronaldo og Nani gefa Fernandes sín bestu meðmæli

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bruno Fernandes og Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United.
Bruno Fernandes og Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United. vísir/getty

Rio Ferdinand segir að Portúgalarnir Cristiano Ronaldo og Nani, fyrrverandi leikmenn Manchester United, hafi gefið landa sínum, Bruno Fernandes, sín bestu meðmæli.

United gekk í gær frá kaupunum á Fernandes frá Sporting Lissabon. United fékk einnig Ronaldo og Nani frá Sporting á sínum tíma.

Ferdinand leitaði álits hjá Ronaldo og Nani á Fernandes. Báðir töluðu þeir vel um miðjumanninn marksækna.

„Nani sagði að hann væri stórkostlegur leikmaður og fullkominn fyrir enska boltann. Hann sagði að hann hefði allt sem til þarf,“ sagði Ferdinand.

„Ronaldo sagði að hann væri frábær og skapaði færi fyrir sig í landsliðinu. Hann þorir að vera með boltann og býr yfir sjálfstrausti. Þetta viltu heyra þegar United kaupir leikmann.“

Ferdinand er gríðarlega spenntur fyrir Fernandes og telur að hann muni gera góða hluti með United.

„Miðað við það sem ég hef heyrt og séð er ég bjartsýnn að hann muni standa sig í stykkinu,“ sagði Ferdinand.

Talið er að United hafi borgað 68 milljónir punda fyrir hinn 25 ára Fernandes sem hefur leikið 19 landsleiki fyrir Portúgal og skorað tvö mörk.

Næsti leikur United er gegn Wolves í ensku úrvalsdeildinni á morgun.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×