Sport

„Að horfa á Mahomes er eins að horfa á Denzel í kvikmynd eða LeBron í úrslitakeppninni“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Patrick Mahomes fagnar sigri í nótt.
Patrick Mahomes fagnar sigri í nótt. Getty/Jamie Squire

Það er óhætt að segja að liðsfélagar Patrick Mahomes séu ánægðir með sinn mann en þessi 24 ára strákur leiddi endurkomu Kansas City Chiefs í Super Bowl leiknum í nótt.

Útlitið var ekki alltof bjart þegar lokaleikhlutinn var hálfnaður, Kansas City Chiefs liðið var tíu stigum undir og lítið hafði gengið í sendingum fram völlinn.



Patrick Mahomes var að reyna en félagar hans voru ekki að svara kallinu. Hann hafði kastað boltanum tvisvar frá sér í sóknunum á undan og mótlætið og pressan hefði bugað marga leikmenn. En ekki þessa verðandi súperstjörnu NFL-deildarinnar.

Leikmenn Kansas City Chiefs eru líka vanir því að sjá Patrick Mahomes breyta leikjum á augabragði með frábærum sendingum.

Leikurinn í gær bættist í hóp margra leikja þar sem Mahomes setti í túrbó gírinn og mótherjarnir áttu fá eða engin svör.



„Að horfa á Mahomes er eins að horfa á Denzel [Washington] í kvikmynd eða LeBron James í úrslitakeppninni,“ sagði Tyrann Mathieu, varnarmaður Kansas City Chiefs liðsins.

„Hann er með þennan neista. Hann að vera svona ungur en finna samt sjálfstraustið til að gera þetta á móti þessari sérstöku vörn segir okkur allt sem við þurfum að vita um þennan mann,“ sagði Mathieu.

„Hann er svo sérstakur. Ég er svo stoltur af honum. Ég vona að hann spili í Kansas City allan sinn feril. Hann er líka betri manneskja en hann er leikmaður og hann er heldur betur stórbrotinn leikmaður. Núna er hann heimsmeistari,“ sagði innherjinn Travis Kelce.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×