Enski boltinn

Stuðningsmenn Manchester United sungu um bann City í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsmenn Manchester United.
Stuðningsmenn Manchester United. Getty/Laurence Griffiths

Stuðningsmenn Manchester United stóðust ekki freistinguna á Brúnni í gærkvöldi og stríddu nágrönnum sínum í Manchester City á því að félagið þeirra væri komið í bann frá Meistaradeildinni.

Líkur Manchester United á að komast í Meistaradeildina jukust stórlega á síðustu dögum. Fyrst með tveggja ára Meistaradeildarbanni Manchester City sem þýðir að fimmta sætið gæti dugað til að fá þátttökurétt í Meistaradeildinni. Svo ennfrekar með 2-0 sigri liðsins á Chelsea á Stamford Bridge í gær.

Manchester Evening News sagði frá því að stuðningsmenn Manchester United hafi sungið um bann Manchester City á leiknum í gær.



Stuðningsmenn Manchester United sungu ávallt um Manchester City áður en City fór að vinna. Þá sungu þeir:

„Svona er tilfinningin að vera í City. Svona líður þér þegar þú ert lítill. Svona líður þér þegar félagið þitt vinnur ekki neitt.“

Eftir að Manchester City er búið að vinna átta titla á síðustu sex árum á móti aðeins tveimur hjá Manchester United var ljóst að þessi söngur gekk ekki lengur upp.  

Eftir nýjustu fréttirnar úr höfuðstöðvum Knattspyrnusambands Evrópu ákváðu stuðningsmenn að uppfæra sönginn.

„Svona er tilfinningin að vera í City. Svona líður þér þegar þú ert lítill. Svona líður þér þegar vegabréfið þitt fer aftur ofan í skúffu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×