Enski boltinn

Lampard: Harry Maguire hefði átt að fá rauða spjaldið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Maguire og Michy Batshuayi liggja í grasinu eftir atvikið en bekkurinn hjá Chelsea trompast.
Harry Maguire og Michy Batshuayi liggja í grasinu eftir atvikið en bekkurinn hjá Chelsea trompast. Getty/Chris Lee

Frank Lampard, knattspyrnustjóri Chelsea, skilur ekki hvernig enski landsliðsmiðvörðurinn Harry Maguire fékk að klára fyrr hálfleikinn þegar Manchester United sótti þrjú stig á Stamford Bridge í gær.

Harry Maguire, fyrirliði Manchester United, slapp með skrekkinn í fyrri hálfleik á móti Chelsea og Maguire gerði síðan út um leikinn með því að koma Manchester United í 2-0 í þeim síðari.



Það var atvik milli Harry Maguire og Michy Batshuayi í fyrri hálfleiknum sem virtist gefa tilefni til að senda Maguire snemma í sturtu. Harry Maguire sparkaði þá í klofið á Batshuayi eftir að þeir höfðu lent í árekstri við hliðarlínuna.

Varsjáin tók það hins vegar fyrir og Harry Maguire fékk enga refsingu.

„Maguire hefði átt að fá rauða spjaldið. Það er klárt og auðvitað breytir það leiknum. Þetta var röng ákvörðun og allir sem ég hef talað við hafa sagt það sama,“ sagði Frank Lampard.



„Það er erfiðara að sætta sig við svona mistök nú þegar við erum með VAR. Svona ákvarðanir skipta öllu máli. Við erum komin með VAR til að það sé hægt að taka á svona hlutum. Skoða þetta aftur og frá fleiri sjónarhornum. Ég skil heldur ekki af hverju dómararnir skoða ekki skjáinn sjálfir,“ sagði Lampard.

Maguire kom sjálfum sér til varnar eftir leikinn og sagði að hann að þetta hafi verið fyrirbyggjandi hjá sér.

„Ég veit að ég fór í hann. Mér fannst hann ætla að detta ofan á mig og náttúruleg viðbrögð mín voru að rétta úr fætinum til að stoppa hann. Ég var ekki að sparka í hann og ég ætlaði ekki að meiða hann. Ég bað hann afsökunar og það var gott að sjá að dómarinn tók skynsamlega á þessu,“ sagði Harry Maguire.

Staðan var markalaus þegar atvikið gerðist. Manchester United kom í 1-0 fyrir hálfleik og Harry Maguire innsiglaði síðan sigurinn með skallamarki í seinni hálfleiknum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×