Innlent

Mynd­band sýnir björgun slasaðra skip­verja frá upp­hafi til enda

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Sigmaður Landhelgisgæslunnar kemur niður í flutningaskipið.
Sigmaður Landhelgisgæslunnar kemur niður í flutningaskipið. Landhelgisgæslan

Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti tvo slasaða skipverja í erlent flutningaskip á laugardag sem statt var norður af Reykjanesi. Myndband sem Landhelgisgæslan birti í dag sýnir björgunina frá upphafi til enda. Þá var önnur þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út í sjúkraflug frá Vesmannaeyjum að kvöldi laugardags en gat ekki lent í Eyjum vegna veðurs, að því er fram kemur í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst fyrst beiðni um aðstoð vegna slyss í vélarúmi flutningaskips, sem statt var skammt norður af Keilisnesi á Reykjanesskaga, á laugardag. Ákveðið var að senda þyrluna TF-EIR til að koma mönnunum undir læknishendur.

Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni segir að vegna tungumálaörðugleika hafi túlkur verið fenginn til að aðstoða áhöfnina áður en þyrlan tók á loft til að fara yfir hvernig staðið yrði að hífingum.

Þegar þyrlan kom á vettvang var sigmanni, lækni, tveimur hífingarbörum og búnaði slakað um borð í skipið. Þyrlan fór frá skipinu meðan áhöfnin athafnaði sig um borð og hlúði að skipverjunum. Þeim var komið fyrir á grjónadýnu í hífingarbörum og undirbúnir til flutnings.

Að því búnu fór þyrlulæknirinn aftur um borð í þyrluna og svo voru skipverjarnir tveir hífðir um borð. Sigmaðurinn fór síðastur frá flutningaskipinu. Skipverjarnir voru svo fluttir á Landspítalann í Fossvogi.

Meðfylgjandi myndband gefur innsýn inn í störf þyrlusveitarinnar. Í því má sjá feril útkallsins frá sjónarhorni sigmannsins.

Þá var áhöfnin á þyrlunni TF-GRO kölluð út að kvöldi laugardags til að annast sjúkraflutning frá Vestmannaeyjum. Vegna veðurs gat sjúkraflugvél ekki lent í Eyjum.

Þyrlan tók á loft frá Reykjavíkurflugvelli á ellefta tímanum og var komin aftur til baka rúmri klukkustund síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×