Handbolti

Hvítu riddararnir í gær: Við elskum mömmur okkar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsmannasveit handboltaliðs Eyjamanna, Hvítu riddararnir, á hliðarlínunni í gær.
Stuðningsmannasveit handboltaliðs Eyjamanna, Hvítu riddararnir, á hliðarlínunni í gær. Mynd/S2 Sport

Stuðningsmannasveit handboltaliðs Eyjamanna bauð aftur upp á mæðramyndir á hliðarlínunni í gær þegar ÍBV rúllaði upp toppliði Hauka. Þær voru hins vegar af allt öðrum toga en síðast.

Hvítu riddararnir fengu á sig mikla gagnrýni fyrir framkomu sína í bikarleik ÍBV og FH á dögunum þar sem þeir buðu meðal annars myndir af mæðrum leikmanna FH í stúkunni og öskruðu og börðu á hurðina á búningsklefa FH-inga eftir leik.

Hvítu riddararnir höfðu beðist afsökunar á framkomu sinni en Handknattleikssamband Íslands á eftir að taka það mál fyrir.

Æðstu menn HSÍ voru mættir til Vestmannaeyja í gær því Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ, og Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, voru á leik ÍBV og Hauka. Þeir voru væntanlega að kanna aðstæður eftir það sem gekk á í leiknum á undan.

Hvítu riddararnir buðu aftur upp á mæðramyndir í leiknum í gær en voru núna með myndir af sínum mömmum auk veggspjalds þar sem stóð: Við elskum mömmur okkar.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×