Innlent

Hættir sem sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps

Þór Steinarsson, fráfarandi sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps.
Þór Steinarsson, fráfarandi sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps. Vopnafjarðarhreppur

Samkomulag hefur náðst á milli sveitarstjórnar Vopnafjarðarhrepps og Þórs Steinarssonar um að hann hætti sem sveitarstjóri. Í Facebook-færslu þar sem hann greinir frá samkomulaginu vísar Þór til þess að hann og sveitarstjórnin hafi haft ólíka sýn á „hlutverk og störf sveitarstjóra“ og því hafi verið heppilegast að leiðir skildu.

Meirihluta sveitarstjórnar Vopnafjarðarhrepps mynda tvö framboð, annars vegar þrír fulltrúar Framsóknar og óháðra og hins vegar tveir fulltrúar Ð-listans, Betra Sigtúns. Tveir fulltrúar Samfylkingarinnar mynda minnihlutann í sveitarstjórninni.

Í Facebook-færslu Þórs um brotthvarf sitt gefur hann ekki frekari skýringar á því hvað bar á milli hans og sveitarstjórnarinnar. Þakkaði hann Vopnfirðingum fyrir samfylgdina og sagði tímann þar hafa verið sér dýrmætur og lærdómsríkur.

„Vopnfirðingar standa frammi fyrir ýmsum áskorunum en þeirra bíða líka fjölmörg áhugaverð og spennandi tækifæri. Ég óska þeim velgengni í þeim verkefnum,“ skrifaði Þór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×