Erlent

Bashir verður sendur til Haag

Samúel Karl Ólason skrifar
Omar al-Bashir stjórnaði Súdan með harðri hendi um árabil.
Omar al-Bashir stjórnaði Súdan með harðri hendi um árabil. Vísir/AP

Embættismenn í Súdan segja að Omar al-Bashir og aðrir fyrrverandi embættismenn í ríkisstjórn hans, verði framseldir til Alþjóðlega sakadómstólsins (ICC). Bashir hefur verið ákærður fyrir þjóðarmorð, stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyninu vegna fjöldamorða og ódæði í Darfur. Honum var velt úr sessi af hernum eftir umfangsmikil mótmæli í fyrra og hefur setið í fangelsi síðan.

Minnst 300 þúsund manns dóu í átökunum í Darfur árið 2003. Um 2,5 milljónir manna þurftu að yfirgefa heimili sín.

Ekki liggur fyrir hvenær Bashir verður sendur til Haag en starfsstjórn Súdan á eftir að skrifa undir Rómarsamþykktina um stofnun dómstólsins áður en hægt er verður að framselja forsetann fyrrverandi og aðra.

Ákvörðunin var tekin í tengslum við friðarviðræður starfsstjórnarinnar við uppreisnarmenn í Darfur

„Réttlæti verður ekki náð ef við græðum ekki gömul sár,“ sagði Hassan Eltaish, talsmaður stjórnarinnar. „Við samþykktum að allir þeir sem eiga handtökuskipun yfir höfði sér verði sendir fyrir Alþjóðlega sakamáladómstólinn.“ Hann nefndi Bashir ekki sérstaklega á nafn en hann var ákærður árið 2009.

Bashir náði völdum í Súdan árið 1989 og stjórnaði ríkinu með harðri hendi.

Hann var fyrsti maðurinn til að vera ákærður af ICC fyrir þjóðarmorð. Auk hans voru tveir aðrir háttsettir meðlimir í ríkisstjórn hans ákærðir. Abdeil-Rahim Muhammad Hussein, sem var innanríkis- og varnarmálaráðherra Súdan, og Ahmed Haroun, sem var háttsettur meðal öryggissveita Súdan.

Bashir var um langt skeið talinn táknmynd vanmáttar Alþjóðlega sakamáladómstólsins þar sem hann ferðaðist víða um heim og var ekki handtekinn, þrátt fyrir að fara til landa sem eru aðilar að Rómarsamþykktinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×