Bíó og sjónvarp

Gengu út eftir sigur Roman Polanski

Andri Eysteinsson skrifar

Þónokkrar leikkonur, þar á meðal leikkonan Adele Haenel, gengu út úr salnum þar sem César kvikmyndaverðlaunin voru veitt í París í gær eftir að leikstjórinn Roman Polanski hafði unnið til verðlauna fyrir bestu leikstjórn.

Kvikmynd Polanski, An Officer and a Spy, vann til þriggja César verðlauna sem eru virtustu kvikmyndaverðlaun Frakklands en myndin hlaut tólf tilnefningar.

Polanski sem flúði frá Bandaríkjunum árið 1978 eftir að hafa verið dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn þrettán ára gamalli stúlku árið áður, sá sér ekki fært um að mæta á verðlaunahátíðinni þar sem hann óttaðist um öryggi sitt.

Þegar tilkynnt var um sigurvegara í flokki leikstjóra gekk leikkonan Adele Haenel úr salnum ásamt leikstjóranum Celine Sciamma. Haenel hefur sagt sögu sína sem þolandi kynferðisofbeldis í æsku. Þá var einnig mótmælt fyrir utan verðlaunahátíðina en BBC greinir frá.





Leikkonan Florence Foresti sem var kynnir á hátíðinni sneri ekki aftur á sviðið eftir sigur Polanski og sagði á Instagram síðu sinni að málið væri ógeðfellt.

Ráðherrar í ríkisstjórn Frakklands hafa einnig gagnrýnt Polanski. Jafnréttismálaráðherrann Marlene Schiappa hafði fordæmt tilnefningar. „Það er ómögulegt að heill salur af fólki standi upp og hylli mann sem hefur margsinnis verið sakaður um nauðgun.“

Menningarmálaráðherrann sagði einnig að það liti illa út ef Polanski ynni verðlaunin þar sem að það þurfi að taka harða afstöðu gegn kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×