Innlent

„Ekkert í reglugerðinni sem segir til um skyldur einstaklinga“

Sylvía Hall skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segist hvetja alla til þess að fara eftir tveggja metra reglunni.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segist hvetja alla til þess að fara eftir tveggja metra reglunni. Vísir/Vilhelm

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir það val hvers og eins að fara eftir þeim leiðbeiningum sem sóttvarnalæknir hefur gefið út varðandi tveggja metra regluna. Í reglugerð sem gefin var út er aðeins kveðið á um skyldu rekstraraðila og vinnuveitenda til þess að tryggja það að fólk geti viðhaldið fjarlægðarmörkum.

Þannig telur Þórólfur að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra hafi ekki gerst brotleg við sóttvarnalög þegar hún hitti vinkonur sínar síðustu helgi. Hún hafi ekki fylgt umræddum leiðbeiningum en líkt og áður sagði: „Það er ekkert í reglugerðinni sem segir til um skyldur einstaklinga til að fara eftir tveggja metra reglunni,“ segir Þórólfur sem ræddi þessi mál í Reykjavík síðdegis í dag.

Hann segir ákveðið misræmi vera í orðalagi hvað varðar tveggja metra regluna í þeim leiðbeiningum sem gefnar hafa verið út. Það geti valdið misskilningi og það þurfi að samræma og laga. Mörg grá svæði séu til staðar þegar kemur að því að viðhalda fjarlægðarmörkum og hefur hann kosið að orða það svo að óskyldir og ótengdir einstaklingar eigi að fara eftir tveggja metra reglunni.

„Ráðherra hefur ekki farið eftir þessum leiðbeiningum en hann hefur ekki brotið reglugerðina.“

Hann segir því val hvers og eins hvenær og þá hvort þeir viðhaldi tveggja metra fjarlægð í samskiptum við aðra. Fólk eigi að geta dæmt um það hvenær það sé best að viðhalda fjarlægðarmörkum með tilliti til þess hversu tengdir þeir eru viðkomandi.

„Það eru kannski vinir, vandamenn, vinnufélagar til dæmis. Á vinnustöðum þarf vinnuveitandi að tryggja þessa tveggja metra reglu og tryggja að fólk geti viðhaft þessa tveggja metra reglu. Síðan er það einstaklinganna að ákveða hvort þeir ætli að fara eftir þessum leiðbeiningum,“ segir Þórólfur, sem hvetur þó langflesta til þess að fara eftir tveggja metra reglunni ef mögulegt er.

Hér að neðan má hlusta á viðtalið við Þórólf.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×