Enski boltinn

Liverpool og Manchester United mætast ekki fyrr en á næsta ári

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah svekkir sig yfir að hafa ekki nýtt gott færi í leik Liverpool og Manchester United á síðustu leiktíð.
Mohamed Salah svekkir sig yfir að hafa ekki nýtt gott færi í leik Liverpool og Manchester United á síðustu leiktíð. EPA-EFE/PETER POWELL

Liverpool er að verja Englandsmeistaratitilinn í fyrsta sinn í þrjátíu ár og það mun reyna vel á liðið í fyrstu umferðunum í titilvörninni.

Enska úrvalsdeildin gaf út leikjadagskrá ensku úrvalsdeildarinnar í morgun og þar kom í ljós að Liverpool fær allt annað en létt verkefni í upphafi móts.

Liverpool byrjar á því að fá nýliða Leeds í heimsókn á Anfield en heimsækir svo Chelsea viku seinna. Þá kemur Arsenal í heimsókn á Anfield í þriðja leik. Áður en kemur að fyrri Merseyside slagnum við Everton þá fer Liverpool í heimsókn til Aston Villa.

Merseyside slagurinn við Everton er síðan fimmti deildarleikur tímabilsins hjá Liverpool og hann fer fram á Goodison Park 17. október eða strax á eftir landsleikjahléi. Sá seinni verður síðan á Anfield 20. febrúar 2021.

Fyrri leikur Liverpool og Manchester City fer fram á heimavelli City 7. nóvember eða rétt fyrir landsleikahléið í nóvember. Seinni leikur liðanna á Anfield er síðan settur á 6. febrúar.

Liverpool spilar við Manchester United í fyrra skiptið á Anfield 16. janúar en seinni leikurinn á Old Trafford er ekki fyrr en 1. maí. Það þarf að bíða til ársins 2021 til að sjá Manchester United liðið reyna sig á móti Englandsmeisturum Liverpool.

Innbyrðis leikir Manchester liðanna fara fram 12. desember á Old Trafford og svo 6. mars á Ethiad leikvanginum.

Annars verður október svakalegur mánuður fyrir Manchester United á Old Trafford en í þeim mánuði spilar liðið heimaleiki við Tottenham (3. október), Chelsea (24. október) og Arsenal (31. október).

  • Fyrstu fimm leikir Liverpool:
  • 12. september - Leeds United (heima)
  • 19. september - Chelsea (úti)
  • 26. september - Arsenal (heima)
  • 3. október - Aston Villa (úti)
  • 17. október - Everton (úti)
  • Fyrstu fimm leikir Manchester City:
  • 19. september - Wolves (úti)
  • 26. september - Leicester City (heima)
  • 3. október - Leeds United (úti)
  • 17. október - Arsenal (heima)
  • 24. október - West Ham (úti)
  • Fyrstu fimm leikir Manchester United:
  • 19. september - Crystal Palace (heima)
  • 26. september - Brighton (úti)
  •  3. október - Tottenham (heima)
  • 17. október - Newcastle (úti)
  •  24. október - Chelsea (heima)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×