Fjölskyldan samanstendur af foreldrunum og fjórum börnum. Þau eru Ali, sem er níu ára, Kayan, sem er fimm ára, Saja sem er fjögurra ára og Jadin sem er eins árs. Fjölskyldan kom til landsins fyrir rúmum níu mánuðum síðan. Fjölskyldan flúði frá Írak til Grikklands árið 2017. Í Írak segjast þau hafa orðið fyrir pólitískum ofsóknum og ofbeldi.
Fjallað var um mál fjölskyldunnar í kvöldfréttum Stöðvar 2 þann 21. febrúar síðastliðinn.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, ræddi mál barnanna á þingi í síðustu viku og skoraði á forsætisráðherra, Katrínu Jakobsdóttur, að forgangsraða upp á nýtt í útlendingamálum.
Sjá einnig: Stjórnvöld hverfi frá „kerfislægri ómennsku við flóttafólk“
Sagði hún íslenska ríkið, með núverandi ríkisstjórn í broddi fylkingar, ekki ætla að gefa fjölskyldunni neitt val um það hvort hún fái að búa hér á landi. „Ég segi með valdi vegna þess að verklag við brottvísun flóttamanna felur oft í sér að börn eru sótt af lögreglu um miðja nótt til að flytja þau úr landi gegn vilja sínum.“
Þá hefur Rauði krossinn sent frá sér yfirlýsingu þar sem segir að ástandið í Grikklandi sé óboðlegt fyrir flóttafólk og hefur það verið svo um nokkurt skeið. „Í ljósi frétta af ástandinu í Grikklandi sl. Daga er ljóst að stjórnvöldum er enn síður stætt á að senda í fyrsta sinn börn og foreldra þeirra út í þessar aðstæður,“ sagði meðal annars í yfirlýsingu Rauða krossins.