Enski boltinn

Lindelöf á mun betri launum hjá Man. United en Bruno Fernandes

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bruno Fernandes og Victor Lindelöf verða alltaf bornir mikið saman eftir rifildið þeirra í lokaleik Manchester United í Evrópudeildinni á tímabilinu.
Bruno Fernandes og Victor Lindelöf verða alltaf bornir mikið saman eftir rifildið þeirra í lokaleik Manchester United í Evrópudeildinni á tímabilinu. EPA-EFE/Clive Brunskill

Enskir fjölmiðlar hafa komist yfir laun leikmanna Manchester United og þar kemur ýmislegt athyglisvert í ljós.

Bruno Fernandes kom til Manchester United á miðju tímabili og kostaði vissulega skildinginn. Fernandes stóð sig frábærlega með liðinu en hann er samt langt frá því að vera launahæsti leikmaður þess.

Bruno Fernandes var með 12 mörk og 8 stoðsendingar í fyrstu 22 leikjum sínum með Manchester United. Liðið fékk 2,29 stig að meðaltali í leik í ensku úrvalsdeildinni með hann innanborðs.

Það vakti athygli þegar Manchester United fékk á sig markið sem kostaði þá sæti í úrslitaleik Evrópudeildarinnar að þeir Bruno Fernandes og Victor Lindelöf hnakkrifust í kjölfarið inn á vellinum.

Bruno Fernandes gerði lítið úr þessu eftir leikinn en Victor Lindelöf kallaði hann ekki fallegu nafni.

Þegar við skoðum launaumslögin hjá þeim Bruno Fernandes og Victor Lindelöf þá kemur í ljós að sænski miðvörðurinn er á betri launum en Bruno Fernandes sem kemur örugglega mörgum á óvart.

Bruno Fernandes fær 5,1 milljón punda í laun á ári eða 100 þúsund pund á viku. Það gerir 927 milljónir í árslaun og rúmar átján milljónir í laun á viku.

Victor Lindelöf fær aftur á móti 6,2 milljónir punda í árslaun eða 1,127 milljarða íslenskra króna. Svíinn er því að fá 21,8 milljónir í laun á viku eða meira en þremur og hálfri milljón hærri laun á viku en Portúgalinn.

Spænski markvörðurinn David De Gea er launahæsti leikmaður Manchester United með 19,5 milljónir punda í árslaun eða 3,5 milljarða íslenskra króna. De Gea fær því 63,6 milljónir í laun á viku og er í sérflokki.

Paul Pogba er næstlaunahæstur en hann fær 52,7 milljónir króna í laun á viku og landi hans Anthony Martial fær 44,4 milljónir í vasann í hverri viku.

Hér fyrir neðan má sjá lista yfir laun leikmanna Manchester United.

Laun leikmanna Manchester United:

  • David De Gea - 19,5 milljónir punda - 350 þúsund pund á viku
  • Paul Pogba - 15 milljónir punda - 290 þúsund pund á viku
  • Anthony Martial - 13 milljónir punda - 250 þúsund pund á viku
  • Marcus Rashford - 10,4 milljónir punda - 200 þúsund pund á viku
  • Harry Maguire - 9,8 milljónir punda- 189 þúsund pund á viku
  • Juan Mata - 8,3 milljónir punda - 160 þúsund pund á viku
  • Luke Shaw - 7,8 milljónir punda - 150 þúsund pund á viku
  • Odion Ighalo - 6,5 milljónir punda - 125 þúsund pund á viku
  • Fred - 6,2 milljónir punda - 120 þúsund pund á viku
  • Victor Lindelof - 6,2 milljónir punda - 120 þúsund pund á viku
  • Nemanja Matic - - 6,2 milljónir punda - 120 þúsund pund á viku
  • Bruno Fernandes - 5,1 milljón punda - 100 þúsund pund á viku
  • Dean Henderson - 5,1 milljón punda - 100 þúsund pund á viku
  • Aaron Wan-Bissaka - 4,6 milljónir punda - 90 þúsund pund á viku
  • Scott McTominay - 60 þúsund pund á viku
  • Mason Greenwood - 40 þúsund pund á viku



Fleiri fréttir

Sjá meira


×