Enski boltinn

Martial segir engan ríg ríkja á milli hans og Rashford

Ísak Hallmundarson skrifar
Félagarnir á góðri stund.
Félagarnir á góðri stund. getty/Catherine Ivill

Anthony Martial átti sitt besta tímabil hingað til fyrir Manchester United á þessu ári þegar hann skoraði 23 mörk í öllum keppnum og var aðalframherji liðsins. 

Liðsfélagi hans, Marcus Rashford, átti einnig sitt besta tímabil og skoraði hann einu marki minna eða 22 mörk. 

Martial segir að það sé enginn rígur á milli hans og Rashford og að þessir öflugu sóknarleikmenn nái frábærlega saman.

„Við reynum bara að hjálpa hvorum öðrum. Við höfum spilað saman í fimm ár þannig við skiljum hvorn annan vel. Það er mjög jákvætt fyrir okkur að við höfum þessa mögnuðu tengingu. 

Við munum alltaf gera hvað sem við getum til að liðið vinni sem þýðir að ef hann er í betri stöðu en ég eða ég í betri stöðu en hann, sendum við alltaf boltann til að auka líkur á marki,“ sagði Martial.

Öflug markaskorun Martial og Rashford hjálpaði Man Utd að ná þriðja sæti og komast aftur í Meistaradeild Evrópu. Þá skoraði hinn 18 ára gamli Mason Greenwood sautján mörk á tímabilinu og verður spennandi að fylgjast með þremenningunum á næsta tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×