Enski boltinn

Raiola staðfestir að Pogba verði áfram hjá Man Utd

Ísak Hallmundarson skrifar
Pogba verður þá líklega áfram leikmaður Man Utd þrátt fyrir allt.
Pogba verður þá líklega áfram leikmaður Man Utd þrátt fyrir allt. getty/Michael Regan

Samkvæmt Mino Raiola, umboðsmanni Frakkans Paul Pogba, verður leikmaðurinn áfram í herbúðum Manchester United á komandi tímabili.

Pogba hefur lengi verið orðaður burt frá rauða liðinu í Manchester og Real Madrid nefnt sem líklegur áfangastaður. 

Nú lítur hinsvegar allt út fyrir að Pogba sé ekki á förum, en miðjumaðurinn kom aftur inn í byrjunarlið Man Utd í júní og spilaði síðustu tíu leikina eða svo í ensku úrvalsdeildinni eftir að hafa verið meiddur nánast allt tímabilið. Hann og Portúgalinn Bruno Fernandes þykja ná vel saman á miðjunni hjá Rauðu djöflunum.

„Pogba verður áfram hjá Manchester United. Hann er lykilleikmaður hjá liðinu, þeir eru í mikilvægu ferli og hann er 100% þátttakandi í því. Man Utd mun ekki samþykkja nein tilboð í leikmanninn í sumar. Við munum ræða nýjan samning fljótlega, engar áhyggjur,“ sagði Raiola við Sky Sport Italia.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×